Síða 10

Vindorka: bein útsending: Með byr í seglin

Vindorka á Íslandi – staða og framtíðarsýn.

Morgunfundur miðvikudaginn 5. mars kl. 9:30-11:30 á Hilton Reykjavík Nordica

  • Hlekkur á fundinn: 

Á miðvikudaginn bjóða KPMG og Orkuklasinn til fundar um stöðu og þróun í vindorku á Íslandi og framtíðarsýn í málaflokknum. Fundurinn er annar í röðinni af fundum um vindorkumál sem KPMG skipuleggur en haustið 2023 hélt KPMG morgunfund sem bar yfirskriftina Með vindinn í fangið og einblíndi á hvernig hægt væri að ná sátt allra hagsmunaaðila um nýtingu vindorku og framtíðarmöguleika slíkrar nýtingar á Íslandi. 

Á síðustu misserum hefur verið mikill framgangur í þróun nýtingar vindorku á Íslandi og nú hillir undir uppbyggingu á fyrsta vindorkugarði á Íslandi. Því er tilvalið að fara yfir stöðu mála og hvað hefur áunnist á undanförnum misserum.

Dagskrá fundarins:

Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála ávarpar fundinn.

·         Vindorkuvegferð Landsvirkjunar
Bjarni Pálsson
, framkvæmdarstjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun.

·         Möguleikar til orkugeymslu og afmörkun svæða til einföldunar leyfisveitinga
Anna-Bryndís Zingsheim Rúnudóttir
, verkefnastjóri hjá KPMG

·         Er hægt að ná sátt með því að tekjur skili sér í ríkari mæli til nærsamfélaga?
Sylvía Vilhjálmsdóttir
, verkefnastjóri hjá KPMG

·         Framtíðarsýn vindorku á Íslandi
Hilmar Gunnlaugsson
, formaður starfshóps um nýtingu vindorku

Pallborðsumræður

Þátttakendur í pallborðsumræðum verða: Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur  Samorku, Magnús G. Erlendsson, meðeigandi hjá KPMG,  Jón G.  Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra og Þorsteinn Arnalds, verkefnastjóri hjá HMS. Róbert Ragnarsson, meðeigandi hjá KPMG stýrir pallborðsumræðum.

Fundarstjóri er Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuklasans.

Er seinni vélin komin?

Þegar tengdadóttir mín flutti vestur á Ísafjörð úr Garðabæ, fannst henni áberandi hvað fólk var upptekið af fluginu, hvort væri flugveður,  yrði flogið eða það fellt niður. Jafnvel þótt fólk væri ekki að fara nýta sér þessa þjónustu í það skipti. Á ísafirði er þetta umræðuefni ágæt opnun á samskipti manna á milli í Nettó, flestir eru meðvitaðir og eru tilbúnir í samtalið.

Flugsamgöngur við Vestfirði eru íbúum mjög mikilvægar, líka þótt samgöngur landleiðis hafi farið batnandi síðustu áratug. Þetta er einu almenningssamgöngurnar á  norðanverðum Vestfjörðum við aðra landshluta.

Samgöngubætur á láði hafa stórbatnað undanfarin áratug þótt eitthvað sé í land þá sjáum við, sem búum á norðanverðum Vestfjörðum fram á að i allra nánustu framtíð að hafa um tvær leiðir að velja þegar við viljum aka uppbyggðan nútímaveg út úr fjórðungnum. Þegar uppbygging leiðarinnar frá Ísafirði yfir Dynjandisheiðina, suður í gegnum Gufudalssveit verður lokið á eru 400 kílómetrar frá Ísafirði niður í Vatnsmýrina í Reykjavík.  Það er framför en samt sem áður þurfum við tryggt flug sem almenningssamgöngurvið svæðið.

Auk þess er nauðsynlegt að tryggja rekstur flugvallarins á Ísafirði vegna sjúkraflugs, sá kostnaður leggst ekki niður þar sem sjúkraflugi hefur fjölgað verulega síðustu árin og má búast við að þeim fjölgi enn frekar. Alltaf eru einhverjir sem eiga ekki kost á að aka þessa leið. Börn á leið til forsjáraðila, fólk að sækja sér heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Þá eru einhverjir dagar á ári sem aðstæður eru þannig að allir leiðar eru ófærar vegna snjóa en hægt að fljúga.

Flugvöllurinn á Ísafirði

Þeir sem hafa flogið til og frá Ísafirði þekkja vel að aðstæður til lendingar eru viðkvæmar og í raun er flugvöllurinn á Ísafirði á undanþágu vegna öryggis og hvað ef sú undanþága fæst ekki lengur?

Guðjón Brjánsson fyrrverandi þingmaður NV kjördæmis lagði fram þingsályktun á Alþingi árið 2018 sem ég studdi um að ráðist yrði í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung, sú tillaga náði því miður ekki í gegn. Með bættum samgöngum innan fjórðungsins er fyrir löngu komin tími til að ráðast í slíka framkvæmd. Það er staðreynd að til að finna öruggasta flugvallarstæðið þarf að fara út úr þröngum fjörðum Vestfjarða til að tryggja bestu lendingaaðstæður. Fólki er tíðrætt um Þingeyrarflugvöll en staðreyndin er að þar eru ekki nægjanlega góð skilyrði fremur en á Ísafirði. Flugvöllurinn á Þingeyri er sjónflugsvöllurinn og ekki hægt að fljúga blindaðflug vegna fjalla í grennd. Enn fremur er brautin í vestanverðum Dýrafirði, nærri hæsta og krappasta fjallgarði á Vestfjörðum.

Höldum fluginu á lofti

Það er ekkert heilagt að Icelandair fljúgi hingað vestur heldur er það mikilvægt að flugið sé tryggt.

Náði seinni vélin að lenda? Þegar spurt er að þessu ertu orðin Ísfirðingur, tengdadóttir mín er nú í fæðingarorlofi á Seljalandsveginum á Ísafirði með gott útsýni yfir flugvöllinn og þegar ég renni við þá er það fastur liður að fara yfir hvernig flugið hafi gengið þann daginn. Jú hún á orðið lögheimili þar ásamt logninu á Ísafirði.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Vestfirðingur

Innanlandsflug eru almenningssamgöngur !

Tryggja verður flug til Ísafjarðar til framtíðar. Engin óvissa má ríkja um svo mikið atvinnu og byggðamál fyrir Vestfirði og þjónustu við fólk og fyrirtæki. Allt frá frumdögum flugs á Íslandi hefur verið flogið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur og jafnvel fleiri áfangastaða. Hagsmunir Icelandair geta ekki einir ráðið því hvort flogið verður áætlunarflug til og frá Ísafirði eða ekki.

Fréttir um að Icelandair ætli að hætta flugi til Ísafjarðar á næsta ári komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ríki og sveitarfélög verða að bregaðst strax við og það er fagnaðarefni að samgönguráðherra hefur nú þegar lýst yfir að flugsamgöngur við Ísafjörð verði tryggðar.

Innanlandsflugið skiptir miklu máli fyrir  byggðir fjarri höfðuðborgarsvæðinu. Íbúar þurfa að sækja ýmsa grundvallarþjónustu til höfuðborgarinnar eins og heilbrigðisþjónustu,stjórnsýslu og verslun og þar eru helstu menntastofnanir landsins. Þá er flugið mikilvæg stoð í allri menningarstarfsemi fyrir vestan og tryggir íbúum á norðanverðum Vestfjörðum eðilegan aðgang þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og tengsl við millilandaflugið.

Atvinnulífið kallar á flugsamgöngur.

Atvinnulíf hefur verið að byggjast hratt upp undanfarin ár á Vestfjörðum með öflugu fiskeldi og ferðaþjónustu þar sem flugið gegnir lykilhlutverki. Fjölmörg afleidd störf hafa skapast í kringum þessar atvinnugreinar. Öruggar flugsamgöngur er mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu, nauðsynlegur valkostur fyrir íbúa svæðisins og hluti af almenningssamgöngum í nútímasamfélagi.

Flugfar er dýrt og efla þarf Loftbrúna .

Það er vissulega orðið dýrt að fljúga innanlands en niðurgreiðslur í gegnum Loftbrúna til íbúa þessara staða hafa skipt miklu máli. Þar er í raun um ríkisstyrk að ræða til flugfélaga. Isavia hefur hins vegar lagt á bílastæðagjöld á Reykjarvíkurflugvelli sem eru of mikil og ósanngjörn og þau þarf að endurskoða strax.

Bættar vegasamgöngur koma ekki í stað Innanlandsflugs.

Þótt vegasamgöngur fari hægt og bítandi batnandi koma þær ekki í staðinn fyrir flug til og frá þeim byggðum sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu. Það tekur þrátt fyrir allt fimm til sex klukkustundir að aka þessa vegalengd. Fólk sem þarf að komast til læknis eða sinna öðrum erindum á sem skemmstum tíma vinnu sinnar vegna eða eldra fólk sem hætt er að keyra  treystir á flugið. Áætlanaflug  er líka nýtt til sjúkraflugs í mörgum tilfellum.

Icelandair hefur fengið mikinn stuðning frá stjórnvöldum.

Icelandair réttlætir ákvörðun sína með skipulagsbreytingum. Flugvélarnar sem nýttar hafi verið fyrir flug til Ísafjarðar hafi einnig verið notaðar í flug til Grænlands. Nú sé búið að leggja stærri flugbrautir á Grænlandi og því geti félagið flogið stærri flugvélum þangað. Þar af leiðandi verði óhagkvæmt fyrir félagið að halda áfram rekstri minni flugvélategundarinnar í flota félagsins.

Alls kyns flugvélar og jafnvel minni þotur hafa lent á Ísafjarðarflugvelli í gegnum árin. Það er erfitt að trúa því að stærri flugvélar Icelandair í innanlandsflugi geti ekki lent á Ísafirði og tekið á loft þaðan. En kannski snýst þetta um sætanýtingu, að Icelandair treysti sér ekki til að selja fleiri sæti til og frá Ísafirði. Þetta þarf að skoða betur.

Icelandair hefu fengið mikinn stuðning í gegnum árin frá ríkinu sem meðal annars hefur verið rökstutt með þjóðaröryggi varðandi samgöngur við landið. Félagið fékk einnig milljarða stuðning frá ríkinu í Covid faraldrinum til að tryggja launagreiðslur til starfsmanna.  Þess vegna er eðilegt að gera vissar kröfur til þess að félagið sýni samfélagslega ábyrgð og vilja til að halda áfram flugi til Ísafjarðar við breyttar aðstæður hjá félaginu.

Önnur flugfélög geta sinnt flugi til Ísafjarðar.

Þegar upp er staðið mun þetta snúast um samninga við þau flugfélög sem koma til greina og geta sinnt flugi til Ísafjarðar.  Í því samhengi þarf að skoða allt innanlandsflug í heildarsamhengi og í samhengi við mögulega niðurgreiðslu ríkisins í innanlandsflugi eins og gert hefur verið með Loftbrúnni .

Ég treysti því að samgönguráðherra og stjórnvöld í heild vinni hratt að því að tryggja flugsamgöngur til Ísafjarðar til framtíðar, hvort sem það verður gert með útboði eða beinum samningum við þau flugfélög sem sinnt hafa innanlandsflugi á landinu undanfarin ár. Óvissa má ekki ríkja í þessum mikilvægu samgöngumálum Vestfirðinga. Framtíð og fyrirsjáanleiki varðandi áætlunarflug til Ísafjarðar er stórt öryggis- og byggðamál fyrir fólk og fyrirtæki á Vestfjörðum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Flokks fólksins NV kjördæmi.

Innviðafélag Vestfjarða: huga þarf að staðarvali fyrir nýjan flugvöll

Hugmyndir Landhelgisgæslunnar um staðsetningu á nýjum flugvelli

Innviðafélag Vestfjarða segir í yfirlýsingu að áform Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar sé bakslag fyrir Vestfirði og það þurfi að auka flugöryggi með athugun á nýrri staðsetningu flugvallarins.

Yfirlýsingin í heild:

„Icelandair tilkynnti í gær áform sín um að hætta flugi til Ísafjarðarflugvallar árið 2026 þegar nýir flugvellir opna í Grænlandi sem Icelandair getur þjónustað með stærri flugvélum. Þá verður Ísafjarðarflugvöllur eini flugvöllurinn í leiðarkerfi Icelandair sem krefst minnstu flugvélategundar félagsins. 

Þessi ákvörðun felur í sér bakslag fyrir samfélagið á Vestfjörðum og skapar óvissu um framtíðarhorfur svæðisins. Ákvörðun Icelandair undirstrikar jafnframt hversu brýnt það er að huga af alvöru að staðsetningu og uppbyggingu flugvallarins á Ísafirði til að auka flugöryggi og aðgengi mismunandi vélakosts. 

Árið 2018, sama ár og ákvörðun var tekin af flugmálayfirvöldum Grænlands að byggja nýja flugvelli þar, var svipuð umræða á Íslandi. Þá lagði Guðjón S. Brjánsson þingmaður fram þingsályktunartillögu um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Því miður bar Alþingi ekki gæfa til að afgreiða það þingmál og eftir sitja Vestfirðir án flugvallar sem sinnt getur almennu farþegaflugi. 

Öruggar, tíðar og áreiðanlegar flugsamgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur eru lykilforsenda fyrir öryggi íbúa, lífsgæði þeirra og áframhaldandi samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.

Jafnframt dregur þessi staða skýrt fram nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist hratt við með auknum fjárfestingum í öðrum samgönguinnviðum, ekki síst á landi, til að tryggja stöðugleika og framtíð vaxtar og viðgangs á Vestfjörðum.

Innviðafélag Vestfjarða hvetur stjórnvöld eindregið til að grípa þegar til að hefja stðarvalskönnun um nýjan flugvöll á Ísafirðir og tryggja reglulegar flugsamgöngur sem og öflugar samgöngur á landi og styðja þannig við áframhaldandi efnahagsævintýri á Vestfjörðum.“

Uppfært kl 22:30 og fyrirsögn breytt og sett önnur mynd.

Samn­ingur við Mýflug framlengdur um hálfan mánuð

Vegagerðin hefur framlengt samning við flugfélagið Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um tvær vikur, eða til 15. mars 2025.

Flogið verður fjórum sinnum í viku líkt og verið hefur undanfarna mánuði.

Vegagerðin samdi við Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur í október á síðasta ári. Í samningnum, sem gildir í 3 ár, felst áætlunarflug yfir helstu vetrarmánuðina, desember, janúar og febrúar, fjórum sinnum í viku. Nú hefur samningurinn verið framlengdur um tvær vikur og gildir til 15. mars eins og fyrr segir. 

Flugleiðin er styrkt sérstaklega af ríkinu til að tryggja tímabundna lágmarksþjónustu á þessari leið á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda er flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.  

Hafís um 58 sjómílur frá landi

Hafískort var teiknað eftir gervitunglamynd sem sýndi blöndu af sýnilegu og innrauðu ljósi frá því kl. 12:00 í gær, mán. 3. mars 2025.
Greina mátti meirihlutann af meginísröndinni á tunglmyndinni og mældist hún í um 58 sjómílna fjarlægð frá Straumnesi þar sem hún var næst landi.

Ísspangir og stakir jakar geta verið handan meginlínunnar nær landi.


Spáð er norðaustan stromi á Grænlandssundi nær óslitið frá því á mánudagskvöld og fram á fimmtudag. Þar á eftir taka við hægari norðaustanáttir út vikuna. Vindur ætti því að valda því að hafísinn fjarlægist landið næstu daga.

Styrkjum úthlutað úr Lýðheilsusjóð

Ráðherra ásamt þeim sem hlutu styrk úr Lýðheilsusjóði 2025

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra úthlutaði á föstudag 98 milljónum króna til 153 verkefna í styrki úr Lýðheilsusjóði við athöfn á Hilton Reykjavík Nordica. 

Á meðal styrkhafa er Héraðssamband Strandamanna í vekefnið Sterk á Ströndum sem fékk 500 þúsund Skíðafélag Strandamanna sem fékk 350 þúsund og Héraðssambandið Hrafna-Flóki sem fékk 300 þúsund í verkefnið Fræðsludagatal Hrafna-Flóka.

Að þessu sinni var áhersla lögð á að styrkja aðgerðir sem miða meðal annars að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika. Einnig var áhersla á áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Við mat á umsóknum fyrir árið 2025 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.

Heilbrigðisráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald Lýðheilsusjóðs.

Arnarlax vill auka laxeldi í Arnarfirði um 4.500 tonn

Arnarlax hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna umhverfismats á auknu sjókvíaeldi í Arnarfirði, en fyrirtækið áformar að auka hámarkslífmassa úr 11.500 tonnum í 16.000 tonn og stækka eldissvæðin úr 5,9 km2 í 29 km2.

Með þessari fram­leiðslu­aukn­ing­unni verður um­tals­verð stækk­un á þeim eld­is­svæðunum sem nú eru í notkun.

Áhrif á erfðablönd­un við villta stofna lax­fiska, sem falla und­ir áhættumat erfðablönd­un­ar eru talin óveruleg. Þá tel­ur Arn­ar­lax að fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar sé ekki lík­leg til að hafa um­tals­verð um­hverf­isáhrif sé tekið til­lit til mó­vægisaðgerða fyr­ir­tæk­is­ins.

Formaður bæjarráðs: óvissu þarf að eyða sem fyrst

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga segir þetta leiðinlegar fréttir aðspurður um viðbrögð við ákvörðun Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar.

„Við höfum reitt okkur á flug félagsins í áratugi. Farþegar eru á ári um 27 þúsund, svo það er eftir talsverðu að slægjast fyrir önnur flugfélög að fara inn á þennan markað, ekki síst þegar ríkið styður innanlandsflug í gegnum Loftbrú. Í þessu samhengi er ágætt að tilkynning um þessi áform komi með góðum fyrirvara.

Þrátt fyrir vegabætur er flugið auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir Ísafjörð og nærsveitir þar sem ekki eru neinar almenningssamgöngur. Flugið er mikilvægt fyrir einstaklinga, atvinnulífið, ferðaþjónustu og skilvirkt nútímasamfélag. Svo eru það starfsmenn Icelandair á Ísafirði.“

Gylfi segir að forsvarsmenn sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum hafi þegar brugðist við og óskað eftir fundum með Icelandair og samgönguráðherra.

„Við í Vestfjarðastofu og forsvarsmenn sveitarfélaganna á svæðinu erum komin með bókaða fundi í vikunni bæði með fulltrúum Icelandair og ráðherra samgöngumála. Þá erum við að setja okkur í samband við hin flugfélögin til að heyra í þeim hljóðið. Gagnaöflun og greiningarvinna er þegar byrjuð.

Ég hef ekki áhyggjur af því að það verði ekki flogið á Ísafjörð áfram, en óvissan er óþægileg og henni þarf að eyða sem fyrst.“

Framkvæmdaleyfi fyrir Örlygshafnarveg loksins á leiðinni

Teikning af fyrirhuguðu vegarstæði.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og fyrrum Rauðasandshrepps að samþykkt verði umsókn Vegagerðarinnar dagsett 22.mars 2024 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna tveggja verkefna á Örlygshafnarvegi, annars vegar um nýjan veg um Hvallátra og hins vegar enduruppbygging á Örlygshafnarvegi (612) frá Hvalskeri að Sauðlauksdal.

Skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga fyrir framkvæmd um Örlygshafnarveg – Hvallátra. Fyrir liggur samþykki landeiganda.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkti í september 2024 útgáfu framkvæmdaleyfis vegna fyrri hluta umsóknarinnar Örlygshafnarvegs Hvalsker – Sauðlauksdalur en frestaði afgreiðslu þess hluta umsóknar er snýr að Örlygshafnarveg Hvallátrum þar til samþykki landeigenda lægi fyrir. 

Nýjustu fréttir