Laugardagur 31. ágúst 2024

Kvenfélagið Brautin: fjáröflun um næstu helgi

Kvenfélagið brautin í Bolungavík stendur fyrir tónlistarveislu í Félagsheimilinu í Bolungavík næsta laugardag 6. september frá kl 20 til kl 01 eftir miðnættið. Um er að ræða eina helstu fjáröflun félagsins og rennur allur ágóði til samfélagsins.

Kvöldstund full af fjölbreyttum tónum frá vestfirskum tónlistarmönnum.
Happdrættismiði fyrlgir aðgangs miða og verða dregnir út þrír stærstu vinningarnir á kvöldinu sjálfu.
Aðrir vinningar dregnir út á Facebook síðu Brautarinnar kl 20:00 5. september.
18 ára aldurstakmark

Aðgangsmiði -> 5000kr.
Happdrættismiði -> 1000kr

Miðasala í gegnum:
Kfbrautin@gmail.com
Eða 8678937

Kvenfélagið Brautin var stofnað 24. nóvember 1911 og stóðu 38 konur að stofnuninni. Félagið starfar enn af miklum þrótti og heldur fundi reglulega í hverjum mánuði yfir vetrartímann.

Hætta á skriðum og vatnavextir á sunnanverðum Vestfjörðum

Kort Veðurstofunnar.

Veðurstofa Íslands segir að gera megi ráð fyrir talsverðri rigningu eða vætu í dag þegar lægð og lægðardrag fer yfir. Mesta úrkoman verður á Sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd og Snæfellsnesi. Uppsöfnuð úrkoma er spáð ná tæplega 140 mm á 24 klst á Sunnanverðum Vestfjörðum og Barðaströnd.

Vegna úrkomu síðustu daga sé meir bleyta til staðar í jarðvegi sem eykur hættuna á skriðuföllum. Varað er við aukinni hættu á skriðuföllum og vatnavöxtum á sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd, Snæfellsnesi og innsveitum Suðurlands.

Þá kemur fram að þrjár skriður hafi fallið á Barðaströnd, í hlíð milli Miðhlíðar Ytri og Innri-Múla. Þær náðu ekki vegi.

Uppfært kl 12:30. Veðurstofan hefur nú greint frá því að  eftir athugun reyndust þetta eldri skriður sem féllu í vatnsveðri í júlí.

Jarðgangaáætlun: Vestfirðir verði settir á oddinn

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sveitarfélagsins til röðunar á gerð jarðganga, sem fram kemur í framlagðri samgönguáætlun fyrir 2024 – 2038, að Ísafjarðarbær hafi sett fram þá meginkröfu að jafnræðis verði gætt milli landshluta hvað varðar forgangsröðun.

„Ísafjarðarbær hefur gert athugasemdir að verkefni á Vestfjörðum skuli ekki raðast ofar í framlagri samgönguáætlun Innviðaráðherra sem ekki fékkst samþykkt á vorþingi. Við höfum beint því til Innviðaráðuneytisins að breyta forgangsröðun jarðganga með því að setja Vestfirði á oddinn enda býr enginn annar landshluti við þær aðstæður sem Vestfirðir þurfa að búa við í dag. Horfa verður til þess gríðarlegs ávinnings sem jarðgöng á Vestfjörðum hafa í för með sér, hvað varðar öryggissjónarmið, sameining búsetu- og atvinnusvæða og ekki síst þeirra gríðarlega miklu þjóðhagslegu verðmæta sem verða til á Vestfjörðum. Að þessu sögðu verður að árétta mikilvægi þess að tryggja öruggar samgöngur milli Ísafjarðar og Súðavíkur með göngum til að losna við snjóflóðahættu og grjóthrun. Álftafjarðargöng munu hafa afar jákvæð áhrif á tengsl milli byggðakjarna á Vestfjörðum. Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Fjölmargir íbúar sækja atvinnu daglega byggðakjarnanna.  Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðis- og velferðarþjónustu, til Ísafjarðar.“

Í tillögu ríkisstjórnarinnar er lagt til að hafist verði handa við Fjarðarheiðargöng og sett fé til undirbúnings og rannsókna þriggja jarðganga, Siglufjarðarskarðsganga, Hvalfjarðarganga 2 og nýrra ganga milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Sex jarðgangakostir verði til viðbótar á 10 ganga lista en ekkert fé verði sett til þeirra. Þar á meðal eru fjórir jarðgangakostir á Vestfjörðum.

Forsætisráðherra Bjarni Benediktsson lýsti því yfir í vikunni að sterk rök væru fyrir því að flýta rannsóknarvinnu fyrir Siglufjarðarskarðsgöngum en framkvæmdir við göngin eiga að hefjast 2028 skv. tillögunni.

Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar frá mars 2023. Hækkun verðlags síðan þá er 5,4%.

Umhverfisráðherra: opinn fundur um orkumál á Ísafirði

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra heldur opinn fund um orkumál í Edinborgarhúsinu, Aðalstræti 7, á mánudaginn þann 2. september kl 20:00.

Á fundinum verður einnig farið yfir stöðu þeirra aðgerða sem kynntar voru í skýrslu ráðuneytisins um tækifæri og áskoranir Vestfjarða. Einar Kristinn Guðfinnsson formaður starfshópsins verður gestur á fundinum.

Aðrir í starfshópnum voru Jón Árnason, þáverandi forsenti bæjarstjórnar Vesturbyggðar og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.

Starfshópurinn benti á að innan við helmingur raforku fjórðungsins væri framleiddur innan fjórðungs og á næstu 7 árum myndi raforkuþörf Vestfjarða aukast um 35 MW. Lagði starfshópurinn áherslu á uppbyggingu raforkuframleiðslu í fjórðungnum. Nefnar eru nokkrar vatnsaflsvirkjanir Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun, Kvíslartunguvirkjun og Vatnsdalsvirkjun og áhersla lögð á mikilvægi þess að staðsetning tengipunktar í Ísafjarðardjúpi verði ákveðin með hliðsjón af því að orkan nýtist Vestfjörðum sem best.

Skýrsla starfshópsins.

Vegagerðin: burðarlag en ekki slitlag

Nýtt burðarlag á veginn vestan Fellsenda. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Haukur Árni Hermannsson, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni segir það vera misskilning hjá Bæjarins besta að unnið hafi verið að lagningu á slitlagi á vegarkafla í Dölunum í vikunni milli Fellsenda og Erpsstaða.

Hann segir að í fyrradag hafi verið klárað að keyra út viðbótarburðarlagsefni sem til stendur að sementsfesta áður en slitlag verður svo lagt yfir það.  Það átti að halda áfram við þessa vinnu í gær föstudag og um helgina en fresta varð þessum aðgerðum vegna vatnsveðurs sem nú gengur yfir svæðið.  Af þessum sökum er vegyfirborð á þessum kafla laust í sér og getur verið varasamt ef ekki er ekið skv. merkingum á svæðinu segir Haukur Árni.

Aðspurður um það hvenær slitlagið verði lagt svaraði Haukur Árni því til að það verði gert strax í kjölfar af þessari sementsfestun, s.s. í næstu viku ef veður leyfir sem stefnir alveg í skv. veðurspá.

Allir með

Verkefnið „Allir með“ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF (Íþróttasamband fatlaðra). Verkefnið er þriggjá ára verkefni sem er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar eru skýr ákvæði um viðeigandi aðlögun allra í íslensku samfélagi.

Verkefnið er styrkt af Félags- og vinnumálaráðuneytinu, Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Íþróttahreyfingin sér um framkvæmd verkefnisins sem verður unnið á tímabilinu 2023 – 2025.

Í samstarfi við Íþróttafélagið Ívar ætlar körfuknattleiksdeild Vestra að bjóða upp á körfuboltaæfingar fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir börn sem til dæmis þurfa meiri stuðning, hentar betur að vera í minni hópum og hafa aðgengi að fleiri þjálfurum á æfingum.

Hópíþróttir, líkt og körfubolti, henta líka fötluðum, börnum á einhverfurófi eða með frávik í hreyfiþroska. Körfubolti er fyrir alla og finnum við leiðir til að aðlaga íþróttina að iðkendum okkar svo þau geti notið sín á æfingum á eigin forsendum, ásamt því að upplifa sig sem hluta af liði.

Yfirþjálfari hópsins verður Egill Fjölnisson. Hann hefur langa reynslu af vinnu í stoðþjónustu hjá Ísafjarðarbæ ásamt því að hafa lokið námi í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er leikmaður meistaraflokks karla í Vestra og hefur æft körfubolta frá unga aldri. Honum til aðstoðar munu vera aðrir þjálfarar frá körfuknattleiksdeild Vestra ásamt þjálfurum frá Íþróttafélaginu Ívar.

Glæpasögudrottningar í Bókasafninu á Ísafirði

Í tilefni af 25 ára afmæli Hins íslenska glæpafélags býður Bókasafnið Ísafirði í höfundaspjall við glæpadrottningar tveggja landa – Satu Rämö (Finnland/Ísland) og Yrsu Sigurðardóttur (Ísland).


En það er von á fleiri gestum: Eiríkur Örn Norðdahl opnar viðburðinn og flytur glæpsamlegt ljóð, nýtt og frumsamið af tilefninu.

Anna Sigríður Ólafsdóttir stýrir spjallinu eins og henni einni er lagið.

Um höfundana:

Satu Rämö er finnsk en hefur lengi búið á Íslandi og á heima á Ísafirði í dag. Hún hefur gefið út fjölda bóka um Ísland, m.a. ferðabækur, minningar og… prjónabók! Nýverið kom út þýðing á fyrstu bók hennar í þríleiknum um ísfirsku rannsóknarlögreglukonuna Hildi sem slegið hefur í gegn í Finnlandi og Þýskalandi.

Yrsa Sigurðardóttir hefur gefið út fjölda bóka, m.a. glæpa- og spennusögur en einnig barnabækur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tugi tungumála og sitja á metsölulistum bæði hér á landi og erlendis. Sögusvið sumra bóka hennar er sérstaklega vel þekkt Vestfirðingum, t.d. skáldsagan sem gerist á Hesteyri í Jökulfjörðum og heitir Ég man þig

Salmonella í kökum

Matvælastofnun varar við neyslu á nokkrum framleiðslulotum af frönskum makkarónukökum með pistasíukremi frá Joie De Vivre sem Costco Iceland hefur flutt inn, vegna salmonellumengunar.

Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness innkallað vörurnar.

Þeir sem keypt hafa vör­una er bent á að neyta henn­ar ekki held­ur farga eða skila henni til versl­un­arinnar.

Vöru­heitið er French Macarons 36pk og inn­köll­un­in á við um fram­leiðslu­lot­ur sem eru með best fyr­ir dag­setn­ing­arn­ar 14/​08/​2024, 19/​08/​2024, 09/​09/​2024, 18/​09/​2024 og 27/​09/​2024.

Réttir 2024

Sveitarstjórnir eða fjallskilanefndir skulu árlega fyrir 20. ágúst, semja fjallskilaseðil þar sem mælt er fyrir um hvernig fjallskilum skuli hagað og réttir ákveðnar. Þar skal tilnefna leitarstjóra og réttarstjóra, einn eða fleiri, sem stjórni því að réttir og leitir fari vel og skipulega fram.

Þetta hefur nú víðast hvar verið gert og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yfir helstu réttir landsins og hér fyrir neðan má sjá réttardaga á Vestfjörðum.

Vestfirðir
Eyrarrétt á Eyri í Kollafirði, Reykhólahreppi, A-Barð.Laugardaginn 7. sept.
Grundarrétt í Reykhólahreppi, A-Barð.Sunnudaginn 15. sept.
Hjarðardalsrétt í Hjarðardal í DýrafirðiSunnudaginn 22. sept.
Hraunsrétt við Hraun í Hnífsdal í SkutulsfirðiLaugardaginn 21. sept.
Innri-Múlarétt á Barðaströnd, V-Barð.Mánudaginn 23. sept.
Kinnarstaðarrétt í Reykhólahr., A-Barð.Ekki réttað í ár
Kirkjubólsrétt í Steingrímsfirði, Strand.Sunnudagana 22. sept. og 6. okt. kl. 14.00.
Kirkjubólsrétt við Kirkjuból í Engidal í SkutulsfirðiLaugardaginn 21. sept.
Kjósarrétt í Árneshreppi, Strand.Laugardaginn 21. sept.
KrossárréttLaugardaginn 14. sept. kl. 16.00
Króksfjarðarnesrétt í Reykhólasv., A-Barð.Laugardaginn 21. sept.
Melarétt í Árneshreppi, Strand.Laugardaginn 14. sept.
Miðhús í Kollafirði, Strand.Vantar upplýsingar
Ný rétt í Kollafirði í stað MiðhúsaréttarSunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 16.00
Minni-Hlíð í Hlíðardal, BolungarvíkLaugardaginn 21. sept.
Skarðsrétt í Bjarnarfirði, Strand.Laugardaginn 21. sept. kl 14.00
Skeljavíkurrétt í Steingrímsfirði, Strand.Föstud.13. sept. og laugard. 28. sept. kl. 16.00.
Staðardalsrétt í Steingrímsfirði, Strand.Sunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 15.00.
Staðarrétt í Reykhólahreppi, A-Barð.Sunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 15.00.
Staðarrétt í Steingrímsfirði, Strand.Sunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 15.00.
Staður, Reykhólahrepp A-Barð.Sunnudaginn 15. sept.
Syðridalsrétt í BolungarvíkLaugardaginn 14. sept.
Traðarrétt við Tröð í Bjarnardal í ÖnundarfirðiLaugardaginn 21. sept.
Vaðalsrétt á Barðaströnd, V-Barð.Sunnudaginn 22. sept.

Gott að eldast þróunarverkefni á Vestfjörðum

Nú standa stjórnvöld fyrir vegferðinni „Gott að eldast“ þar sem tekið er utan um málefni eldra fólks með nýjum hætti þar sem aðgerðaráætlun er fylgt eftir til að tryggja betri þjónustu við eldra fólk, meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni.

Sex svæði á landinu voru valin til þátttöku í þróunarverkefnum um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þar á meðal á Vestfjörðum, þar sem Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður og sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, ásamt Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfa í samvinnu við að efla og þróa þjónustu fyrir eldra fólk. Verkefnið er styrkt af stjórnvöldum og ætlað til þess að vera leiðarvísir um skýra framtíðarsýn og heildræna nálgun í málefnum eldra fólks.

Virkni og vellíðan eldra fólks

Með verkefninu er sérstök áhersla lögð á virkni og vellíðan eldra fólks til þess að draga úr áhættu á félagslegri einangrun og einmanaleika. Með því að styðja heilsu og vellíðan, félagslega þátttöku og öryggi eldra fólks má hafa jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra. Tækifærin á Vestfjörðum eru fjölmörg til þess að efla aldursvænt samfélag. Horfa þarf til styrkleika, mikilvægi framlags og þátttöku eldra fólks sem ávinning fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Tengiráðgjafi til starfa

Það verður í höndum tengiráðgjafa, sem nýverið hóf störf fyrir sveitarfélögin innan þróunarverkefnis Gott að eldast á Vestfjörðum, að huga að verkefnum sem styðja við einstaklinga til virkni og vellíðanar. Við búum að verðmætum tækifærum til þátttöku, heilsueflingar, félagsstarfs, fræðslu og tómstunda eldra fólks í samfélaginu okkar. Markmið okkar ætti að vera að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni fólks til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins.

Tengiráðgjafi er til taks fyrir einstaklinga sem og aðstandendur eldra fólks. Einnig tengir hann íbúa við bjargir sem fyrir eru í samfélaginu og fjölbreytt úrval virkni úrræða. Undirstaðan í starfi tengiráðgjafa er að styðja við fólk til að geta átt gefandi líf alla ævi.

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir

Höfundur er tengiráðgjafi Gott að eldast á Vestfjörðumalbertag@isafjordur.is

Gott að eldast – Hér má lesa aðgerðaráætlun í heild sinni.

Nýjustu fréttir