Miðvikudagur 15. janúar 2025

FV: harmar niðurskurð á fjármagni til farnetsuppbyggingar

Mynd sem sýnir hvar nýir sendar þurfa að koma.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga ræddi stöðu farnetsuppbyggingar á Vestfjörðum á fundi sínum 18. desember. Fyrir liggur Fjarskiptaáætlun Vestfjarða (apríl 2024) og stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu farnets á stofnvegum fyrir árslok 2026.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga bókaði að hún harmi þá ákvörðun stjórnvalda að skera af fjármagn
sem ætlað var til uppbyggingar farnets á stofnvegum og fara því gegn markmiðum í samþykktri Fjármálaáætlun 2025-2029. Tilgreint fjármagn var ætlað til samstarfs ríkisins (Öryggisfjarskipta ehf.) með fjarskiptafyrirtækjum og ljúka uppsetningu nauðsynlegra senda fyrir árslok 2026. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga bendir á að nú verða fjarskiptafyrirtækin ein með uppbyggingu farnetsins og vænta má að verkefninu seinki verulega. Stjórnvöld eru því hér ábyrg að viðhalda óöryggi vegfarenda á stofnvegum á Vestfjörðum til óljósar framtíðar jafnt á farneti sem og Tetrakerfi viðbragðsaðila.

Skorar á nýja ríkisstjórn að falla frá niðurskurðinum

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skorar á komandi ríkisstjórn að snúa þessari ákvörðun og veita heimild í fjáraukalögum 2025 til að setja fjármagn að nýju í verkefnið. Á Vestfjörðum er um að ræða 24 senda sem þarf að byggja upp auk viðbótarbúnaðar fyrir Tetrakerfi. Verði ákvörðun um niðurskurð ekki snúið, verður að tryggja að þau verkefni sem fara af stað á vegum fjarskiptafyrirtækja verði forgangsraðað á Vestfirði.

Félagsheimilið Flateyri: hverfisráð Önundarfjarðar og Leikfélag Flateyrar lýsa yfir vonbrigðum með áformaða sölu

Mikil veisluhöld voru í félagsheimilinu á Flateyri í tilefni 50 ára afmælis björgunarsveitarinnar Sæbjargar

Hverfisráð Önundarfjarðar bókaði á fundi sínum í byrjun desember 2024 um fyrirhugaða sölu Félagsheimilis Flateyrar sem bæjarráð Ísafjarðabæjar lýsti yfir um miðjan nóvember að það væri fylgjandi.

Var erindið tekið fyrir á bæjarráðsfundi á mánudaginn, rúmum mánuði síðar.

Í bókuninn lýsir Hverfisráð Önundarfjarðar yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið haft samband við ráðið
og borið undir það að enn standi til að selja samkomuhúsið á Flateyri. Hverfisráðið bendir á að húsið hefur verið nýtt með góðum árangri fyrir þær tvær leiksýningar sem Leikfélags Flateyrar hefur sett upp síðan
það var endurvakið fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Samfélagið á Flateyri sé samhent og mörgum mjög annt um húsið. Viðgerðir voru unnar í sjálfboðavinnu árið 2005 fyrir fé úr sjóðnum samhugur í verki og styrk frá fyrirtækinu Kambi. „Við viljum gjarnan fá tækifæri til samtals áður en skrefið um að auglýsa húsið til sölu verður tekið og skoða alla möguleika á áframhaldandi eigu Ísafjarðarbæjar á húsinu í samráði við samfélagið á Flateyri.“

Einnig var lagt fram erindi frá Leikfélagi Flateyrar. Það er einnig lýst yfir vonbrigðum með áform Ísafjarðarbæjar um sölu hússins. Gerð er athugasemd við fullyrðingar um viðhaldskostnað sem bærinn hafi borið af húsinu.

„Samkvæmt bestu vitund Flateyringa sem af húsinu hafa komið síðustu áratugina hefur húsinu ekki verið haldið við að nokkru leyti síðan árið 2005 þar sem vaskir Flateyringar lögðu vinnu sína fram og peningur í framkvæmdirnar kom úr sjóðnum Samhugur í verki, Hjálmi og öðrum frjálsum framlögum. Umsjón hússins var svo í höndum Lýðskólans frá 2018-2023.“

Þá segist Leikfélagið ósammála því sem kemur fram í fundargerð bæjarráðs og minnisblaði um að lítil notkun hafi verið á húsinu undanfarin ár.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við bréfritara og leggja málið fyrir að nýju.

Skemmtiferðakip: engar afbókanir á Ísafirði

Skemmtiferðaskip við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að engar afbókanir hafi borist enn frá skemmtiferðaskipum sem hafa boðað komu sína í sumar. Hann segist telja að skipafélögin fylgist með áformum nýrrar ríkisstjórnar og bíði átekta. Um áramótin tók gildi nýtt gjald á ferðamenn með skemmtiferðaskipum, svonefnd innviðagjald, sem er 2.500 kr. á hvern farþega fyrir hvern sólarhring sem skip er á ferð um landið. Hilmar sagði að fyrir stórt skemmtiferðaskip væri gjaldið um 55 m.kr. fyrir hverja ferð um landið og skip sem kemur átta sinnum yfir sumarið væri þetta 440 m.kr. útgjöld fyrir skipafélögin. Farþegarnir hafa þegar greitt ferðina og verður því skipafélagið að greiða gjaldið.

Samtök hagsmunaaðila Cruise Iceland mótmæltu lagasetningunni og fóru fram á að gjaldið yrði innheimt í áföngum en ekki varð orðið við því við afgreiðslu fjárlaga 2025.

Á Akureyri segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands að skipakomum muni fækka um 44 í Eyjafjörð eða um 17%. Eins hefur orðið vart við afbókanir á Grundarfirði, Vestmannaeyjum og hjá Faxaflóahöfnum.

Alls komu 186  skemmtiferðaskip til Ísafjarðarhafna í fyrra, allar til Ísafjaðar en þó þrjár til Þingeyrar. Farþegafjöldinn sem skemmtiferðaskipin báru var tæplega 235 þúsund manns og tekjur hafnarsjóðs af þessari starfsemi námu um það bil 756 milljónum króna. 

Erna Lea er nýr verkefnastjóri farsældar hjá Vestfjarðastofu

Erna Lea Bergsteinsdóttir hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra farsældar hjá Vestfjarðastofu. Auglýst var eftir umsóknum í nóvember síðastliðnum og bárust 10 umsóknir um starfið.

Erna Lea er með meistaragráðu í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Háskóla Íslands. Hún hefur undanfarið starfað sem félagsráðgjafi í barna- og fjölskylduteymi hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar. Jafnframt hefur hún reynslu af því að vinna með börnum og unglingum í félagsmiðstöðvum og hefur verið aðstoðarmaður dósents við Háskóla Íslands. Starfsnámi sínu í félagsráðgjöf sinnti Erna meðal annars hjá Vesturbyggð.

Erna er nýr íbúi á Vestfjörðum. Hún verður búsett á Bíldudal og mun vinna á starfsstöð Vestfjarðastofu í Ólafshúsi á Patreksfirði.

Farsældarverkefnið er samstarf Vestfjarðastofu og mennta- og barnamálaráðuneytisins og er til tveggja ára. Verkefnið nær yfir allt starfsvæði Vestfjarðastofu og verkefnastjóri mun vinna með hagaðilum um alla Vestfirði. Markmið verkefnisins eru að samhæfa farsældarþjónustu í sveitarfélögunum á Vestfjörðum og koma á fót svæðisbundnu farsældarráði í landshlutanum.

Brunar og slys af völdum rafmagns 2010-2023

Húsnæðis og mannvirkjastofnun tekur reglulega saman yfirlit yfir bruna og slys af völdum rafmagns og gefur út í skýrslu.

Skýrslan er ætluð fagmönnum á rafmagnssviði og almenningi til að upplýsa um orsakir bruna og slysa af völdum rafmagns og tjón samfélagsins af þessum völdum. Markmiðið er að koma í veg fyrir bruna og slys af völdum rafmagns eins og kostur er.

Árin 2010-2023 voru 334 rafmagnbrunar skráðir hjá rafmagnsöryggisteymi HMS. Þetta er ekki nema hluti þeirra rafmagnsbruna sem verða því talið er að fjöldi „minni“ bruna sé aldrei tilkynntur eða aðeins tilkynntur til tryggingafélaga.

Fimm dauðsföll eru talin vera af völdum rafmagnsbruna á þessu tímabili, en á tímabilinu 2000-2009 urðu fjögur dauðsföll vegna rafmagnsbruna.

Árin 2010-2023 voru skráð 64 rafmagnsslys hjá HMS. Stofnunin telur að það sé aðeins lítill hluti allra rafmagnsslysa, en gerir ráð fyrir að skráningin nái til flestra alvarlegra slysa.

Í skýrslunni sem nú kemur út eru upplýsingar um bruna og slys sem rafmagnsöryggisteymi HMS tók þátt í að rannsaka eða fékk upplýsingar um á árunum 2010-2023 og ályktanir sem má draga af niðurstöðunum. Í henni er sett fram tölfræði um rafmagnsbruna, svo sem um fjölda og dauðsföll skipt niður á ár, brunastað, uppruna bruna og orsök. Einnig er þar að finna tölfræði um rafmagnsslys, svo sem fjölda skipt niður á ár, tegund slysa, orsök og orsakavald sem og fjölda sjúkradaga og kunnáttusvið slasaðra.

Hafrannsóknastofnun fær fjarstýrðan kafbát

Sjávarlíffræðingarnir Julian Burgos, Bylgja Sif Jónsdóttir og Steinunn Hilma Ólafsdóttir og Valdimar Karl Kristinsson frá Slippnum á Akureyri sem er umboðsaðili Deep Trekker á Íslandi.

Hafrannsóknastofnun fékk í gær afhendan nýjan fjarstýrðan kafbát í þeim tilgangi að auka möguleika til rannsókna í fjörðum og flóum umhverfis landið og gera þeim betri skil en tæki af þessu tagi hafa verið nefnd djúpkannar til að forðast samanburð við stærri og mannaða kafbáta.

Um er að ræða fjarstýrðan djúpkanna af gerðinni Revolution framleiddan af kanadíska fyrirtækinu Deep Trekker. Djúpkanninn er einn sá tæknilegasti sinnar tegundar hér á landi en hann er sérlega vel útbúin búnaði sem hentar verkefnum stofnunarinnar. Hann er búinn 4K upptökuvél, tveimur laserum og fjórum led ljósum og mun safna myndefni af hafsbotni.

Myndefnið verður notað við ýmsar rannsóknir, til dæmis kortlagningu búsvæða, skráningar á lífríki og botngerð, mat á áhrifum og margt fleira. Griparmur fylgir með sem veitir möguleika á söfnun sýna. Með þessu tæki opnast margir nýir möguleikar sem leiða til aukinnar þekkingar á grunnsævi í kringum landið.

Djúpkanninn er einungis 26 kg á þyngd, kemst á 300 metra dýpi og er knúinn af sex seguldrifnum skrúfum sem ráða við allt að 4 hnúta straum.

Hann gengur fyrir tveimur batteríum og duga í allt að 6 klst en auk þeirra var keyptur búnaður sem beintengir bátinn við aflgjafa á yfirborðinu svo notkunartími takmarkast aðeins af aðstæðum tengdum ytri aflgjafa.

Aflahluddeild í grásleppu

Fiskistofa hefur birt upplýsingar um aflahlutdeild í grásleppu.  Alls fá 262 bátar úthlutað aflahlutdeild.  Krókaaflamarksbátar eru með 61%, bátar á aflamarki 32% og aðrir með 7%.

Samkvæmt lista Fiskistofu fá eftirtaldir aflahlutdeild hærri en 1%.

Nafn bátsVeiðisvæði Aflahlutdeild
Hlökk ST 66Húnaflói1,50%
Ásdís ÞH 136Norðurland1,38%
Kóngsey ST 4Húnaflói1,37%
Rán SH 307Breiðafj. Vestfirðir1,35%
Æsir BA 808Breiðafj. Vestfirðir1,28%
Oddur í nesi SI  176Norðurland1,09%
Fjóla SH 7Breiðafj. Vestfirðir1,07%
Hugrún DA 1Breiðafj. Vestfirðir1,05%

Samtals er aflahlutdeild þessara 8 báta 10%.

Á svæðinu Breiðafjörður -Vestfirðir eru þetta þeir bátar sem fengu mesta úthlutun en samtals fengu 75 bátar á því svæði úthlutað aflahlutdeild samtals um 20% af heildar úthlutun.

Villtur lax losnar við lúsina

Ný skýrsla Náttúrustofu Vestfjarða hefur vakið þá ályktun að lús smitist frá eldiskvíum yfir í villtan lax og geti skaðað hann samanber umfjöllun í Morgunblaðinu í síðustu viku. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en í gær og þar má lesa fleira sem máli skiptir og bendir ekki til þess að svona sé í pottinn búið.

Athyglisvert er að aðeins einn lax var veiddur í rannsóknunum sem fram fóru í fyrra og eru því engar upplýsingar um áhrif eldisins á villtan lax út frá því. Sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar allt frá 2016 um lús á laxfiskum og eiga þær það sammerkt að villtur lax er ekki til rannsóknar.

Rannsóknirnar hafa snúið að bleikju og sjóbirtingi. Það eru vatnafiskar sem ganga í sjó 6 – 8 vikur á ári og fara yfirleitt ekki langt frá sinni á og eru grunnt. Þeir eru lúsalausir þegar þeir ganga í sjó og fá þar á sig lús. Það er mögulegt að þeir sæki lús í eldiskvíar og segir í skýrslunni :

„Gögnin sýndu enn fremur sterka fylgni á milli lúsamagns á villtum fiski og magns fullorðinna kvenkyns laxalúsa í nærliggjandi fiskeldisstöðvum. Marktækt fleiri smittilvik fundust í villtum fiski frá svæðum þar sem hátt magn fiskilúsa fannst í fiskeldisstöðvum, sérstaklega þegar heimkynni þeirra voru nálægt netakvíum.“

En þessar tegundir, bleikja og sjóbirtingu, ganga aftur upp í ferskt vatn yfir vetrartímann og „losna þeir þá við sjávarlúsina á náttúrulegan hátt.“ segir í skýrslunni. En lúsin drepst í fersku vatni. Tíminn sem lús er á fiskunum er svo stuttur að varla verður skaði af enda er það ekki fullyrt í skýrslunni. Það hefði mátt segja frá því í skýrslunni með skýrum hætti að silungurinn losnar við alla lús innan fárra vikna.

Varðandi villta laxinn þá gefa skýrslurnar ekki neinar upplýsingar um lúsasmit frá eldiskvíum. Athuga ber þó að eldisfiskur er lúsalaus þegar hann er settur út og lús berst í kvíarnar utan frá , frá villtum lax og silungi.

Það er þó vitað að laxaseiði ganga í sjó á vorin og halda til hafs. Þau geta synt framhjá kvíum en á þeim tíma er lúsin ekki áberandi. Seiðin koma svo til baka eftir 1-3 ár sem fullvaxinn fiskur og væntanlega með lús á sér. Mögulegt er að laxinn bæti á sig lús á leiðinni upp í sína á en það er skammur tími og þegar í ána er komið drepst lúsin.

Þetta bendir ekki til þess að villtir laxafiskar séu í teljandi hættu af lús frá eldiskvíum.

Helsti skaðinn af lús er á eldisfiskinn og verkefnið er að halda lúsasmiti í kvíunum í lágmarki.

-k

Þekkir einhver þennan franska mann? Hefur einhver hitt hann eða verið í sambandi við hann?

Frédérik Chabanel er franskur maður fæddur 1975. Hann er með fæðingarblett á hálsinum.
Hann kom til Íslands þann 26. júní 1999. Þann 21. júlí fréttist af honum á hótel Ísafirði og 22 ágúst tók hann peninga úr heimabanka í Reykjavík.
Í ágústmánuði 1999 hringdi hann nokkrum sinnum í fjölskyldu sína í Frakklandi. Hann talaði um að honum liði vel á Íslandi, að hann hefði fengið vinnu á fiskibáti eða í byggingarvinnu.
Eftir það hefur ekkert heyrst frá honum, hvorki símtal né bréf. Gerð hefur verið leit að honum á Íslandi en án árangurs. Nafn hans hefur ekki fundist í opinberum gögnum.
Varð hann fyrir slysi? Var hann ef til vill tekinn af lífi? Yfirgaf hann Ísland og lét sig hverfa?
Við biðjum um ykkar hjálp. Frédérik hafði gaman af göngum úti í náttúrunni. Hann hafði einnig ánægju af að hitta og spjalla við Íslendinga á börum. Ef þú manst eftir að hafa hitt hann þætti okkur vænt um að þú hefðir samband og segðir okkur um hvað þið töluðuð. Var hann með einhver plön?
Ræddi hann um einhver lönd sem hann langaði til að heimsækja?
Er kannski einhver ennþá í sambandi við hann?
Í 25 ár hefur fjölskylda hans leitað að honum án árangurs. Samtökin ARPD sem hjálpa við leit á týndu fólki óska eftir aðstoð við að komast að því hvað kom fyrir Frédérik Chabanel.
Ef einhver telur sig hafa upplýsingar sem geta hjálpað, vinsamlegast hafið samband við international@arpd.fr . það má vera á Íslensku,Frönsku,Ensku
Bestu þakkir!
ARPD (Assistance et Recherche de Personnes Disparues)
(Aðstoð og leit að týndum einstaklingum)

Gagnaver í Veðrarárdal – heimilað verði að gera deiliskipulag

Neðri -Breiðadalur, Fremri-Breiðadalur og Ytri-Veðrará. Mynd: Mats Wibe Lund.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjaðarbæjar hefur fengið yfirlýsingu um samþykkti landeiganda við áform um gerð deiliskipulags fyrir gagnaver í Veðrarárdal. Veitt er samþykki fyrir því að unnið verði deiliskipulag og mögulegar aðalskipulagsbreytingar því tengdum.

Erindi frá Birni Davíðssyni f.h. óstofnaðs hlutafélags var lagt fram 12. desember. Þá vildi nefndin fá undirritaða heimild landeigenda þar sem þeir heimila breytingar. Nú liggur það fyrir og leggur skipulags- og mannvirkjanefnd til við bæjarstjórn að heimila Birni Davíðssyni að hefja vinnu við deiliskipulag.

Nýjustu fréttir