Mikill munur á húsaleigu

Alls tóku 1.400 nýir leigusamningar gildi í leiguskrá HMS í febrúar á sama tíma og 791 samningur féll úr gildi. Gildum leigusamningum fjölgaði þannig um 609 milli mánaða. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr leiguskrá.

Af þeim 1.400 samningum sem tóku gildi í febrúar voru 77 prósent á vegum einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga, en HMS metur markaðsleigu út frá slíkum samningum. Hlutfallið var sambærilegt í febrúar árið 2024 þegar 79 prósent af 1.297 nýjum samningum voru gerðir á markaðsforsendum. 

Meðaltal markaðsleigu í nýskráðum samningum í febrúar var 263 þúsund krónur og er óbreytt frá fyrri mánuði. Sé litið til leiguíbúða sem eru minni en 80 fermetrar var meðaltal markaðsleigu 231 þúsund krónur og hækkaði um 1,3 prósent milli mánaða. Fyrir stærri leiguíbúðir var leiguverð að meðaltali 296 þúsund krónur og lækkaði um 2,1 prósent milli mánaða. 

Markaðsleiguverð er nokkuð breytilegt eftir landshlutum og sveitarfélögum, eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni en hún sýnir meðaltal markaðsleigu í sveitarfélögum þar sem gerðir voru fimm eða fleiri leigusamningar í mánuðinum.

Alþjóðleg ráðstefna um ofanflóðavarnir

Árið 2025 er þess minnst að 30 ár eru frá því að hin mannskæðu snjóflóð féllu í Súðavík og á Flateyri árið1995.

Atburðirnir ollu ekki aðeins miklu manntjóni heldur einnig umtalsverðu eignatjóni og röskun á lífi fólks og starfsemi fyrirtækja. Frá því snjóflóðin féllu hefur verið unnið markvisst að byggingu varnarmannvirkja og aðlögun samfélaga að þeirri ógn sem þessi náttúruvá er.

Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) vill minnast þessara atburða með því að halda næstu SNOW ráðstefnu á Ísafirði dagana 30. september til 3. október nk. Áður hefur VFÍ staðið fyrir samskonar ráðstefnum á Siglufirði 2019 og á Egilsstöðum 2008.

Ráðstefnan SNOW2025 er alþjóðleg ráðstefna um ofanflóðavarnir og ber nafnið:

The International Symposium on Mitigation Measures against Snow Avalanches and other Rapid Gravity Mass Flows.

Megin þemu ráðstefnunnar eru:

  • Áhættustjórnun
  • Umhverfi og samfélag
  • Skipulag, hönnun, uppbygging og viðhald varnarmannvirkja
  • Virkni varnargarða byggt á reynslu, tilraunum og tölulegum hermunum.

Síðustu ráðstefnur hafa laðað að sér fjölmarga íslenska þátttakendur og töluverðan hóp erlendra vísindamanna og fagfólks. Ráðstefnan er ætluð fólki frá sveitarstjórnum, stjórnsýslu, rekstraraðilum skíðasvæða, vegagerð, mannvirkjahönnuðum, eftirlitsaðilum og fræðimönnum innlendum sem erlendum.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru íslenskir og erlendir fagaðilar. Þeir eru:

Verkfræðingafélag Íslands, Vegagerðin, Skipulagsstofun, FSRE, Háskóli Íslands, COWI, NTNU í Þrándheimi, Norges Geotekniske Institutt NGI, SLF í Davos Sviss, og ORION Consulting slf.

Á vefsíðu ráðstefnunnar www.snow2025.is má nálgast frekari upplýsingar. 

Ísafjörður: lóðum úthlutað á Suðurtanga

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur birt tillögur sínar um úthlutun lóða á Suðurtanga. Leggur nefndin til að Eimskip fái tvær lóðir, Hrafnatanga 6 og Æðartanga 11 með vísan í 6. gr. lóðarúthlutunarreglna Ísafjarðarbæjar sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki eða stofnun á næstu lóð þurfi að eiga möguleika á því að stækka lóð sína. Nefndin telur að tryggja þurfi lóðir fyrir land- og sjóflutninga sem næst hafnar- og gámasvæði. Staðsetning á þessu svæði mun bæta umferðaröryggi á Suðurtanga.

Þá er lagt til að Nora Seafood ehf.  fái lóðina Hrafnatanga 4 og Vestfirskir verktakar ehf fái Æðartanga 9.

Ísinn ehf var með umsóknir um nokkrar lóðir en féll frá þeim.

Tillögurnar verða afgreiddar á næsta bæjarstjórnarfundi.

Grunnvíkingafélagið í Reykjavík: stefnt að því að leggja félagið niður

Frá Flæðareyri, en þar eru fjórða hvert ár haldnar fjölmennar samkomur Grunnvíkingafélaganna.

Aðalfundur Grunnvíkingafélagsins í Reykjavík var haldinn í síðustu viku. Samþykkt var að stefna að því að að félagið í Reykjavík verði lagt niður sem fyrst og ný stjórn vinni þá vinnu fram að næstu aðalfundi, sem stefnt er að halda á haustdögum.

Í fundargerð segir að  áttahagafélög víða um land hafa verið að leggjast af og að félagsmenn séu hættir að leggja tíma sinn í slík félög.

Þá var einnig samþykkt að selja hlut félagsins í Höfða orlofshúsi. Húsið þarfnast orðið mikils viðhalds og ásókn í gistingu hefur minnkað síðustu ár. Félagið á helming í húsinu á móti Grunnvíkingafélaginu á Ísafirði og hefur verið farið fram á að það heimili sölu hússins.

Í stjórn Grunnvíkingafélagsins í Reykjavík voru kosin Páll Halldór Halldórsson, formaður, Hallfríður Ragúelsdóttir, gjaldkeri, Helga Björg Hafþórsdóttir, meðstjórnandi og Vala Smáradóttir, meðstjórnandi / varamaður.

Félagið er skuldlaust og eignir þess er metnar á 11 m.kr. auk 705 þúsund króna í sjóði.

Vestri: Freyja Rún valin í hæfileikamót KSÍ

Margrét Magnúsdóttir yfirmaður í Hæfileikamótun N1 og KSÍ, hefur valið Freyju Rún Atladóttur leikmann Vestra til þátttöku í Hæfileikamóti sem fram fer í knattspyrnuhúsinu Miðgarði í Garðabæ dagana 26.-28. mars nk.

Freyja Rún er fædd 2011.

Samfylkingin á Vestfjörðum: skorar á ríkisstjórnin að bæta úr samgöngumálum í fjórðungnum

Aðalfundur Samfylkingarinnar á Vestfjörðum var haldinn miðvikudagskvöldið 12. mars, í Rögnvaldarsal á Edinborg.

Á fundinum var farið yfir starf félagsins frá síðasta aðalfundi sem var 22. mars 2023. Miklar breytingar hafa orðið á hinu pólitíska landslagi s.l. tvö ár. Óvinsæl ríkisstjórn farin frá völdum og ný ríkisstórn Kristrúnar Frostadóttir komin til valda, binda jafnaðarmenn miklar vonir við þá ríkisstjórn.

Á fundinum var farið yfir gott starf fráfarandi stjórnar, mikil vinna farið fram og framundan eru kosningar til sveitastjórnar á næsta ári.

Á fundinum var Gylfi Þór Gíslason, endurkjörinn formaður félagsins.

Aðrir í stjórn voru endurkosnir: Emil Emilsson, Ísafirði, Eysteinn Gunnarsson, Hólmavík, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Patreksfirði, Gunnhildur Elíasdóttir, Þingeyri, Magnús Bjarnason, Ísafirði.

Finney Rakel Árnadóttir, Ísafirði kom ný inn í staðinn fyrir Bryndísi Friðgeirsdóttur.

Á aðafundinum var Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, gestur fundarins. Hún ræddi um hennar nýja starf sem bæjarstjóri og stöðu mála. Einnig var til umræðu komandi kosningar. Spunnust fjörugar umræður um málefni bæjarins og Í-listans.

ályktanir aðalfundar

Á aðalfundinum voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:

„Aðalfundurinn lýsir yfir ánægju sinni með nýja ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar og bindur miklar vonir við stjórnin nái að auka jöfnuð fólksins í landinu.

Megin verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að styrkja innviði samfélagsins eftir vanrækslu undanfarinna ára, þar sem afleiðing hefur verið veruleg innviðaskuld  sem er að finna víða í samfélaginu.

Samgöngumál eru einn þeirra málaflokka sem vanræktur hefur verið og bitnar sú vanræksla ekki síst á Vestfirðingum. Því skorar fundurinn á ríkisstjórnina að bæta þar verulega úr svo hægt verði að sinna nauðsynlegu viðhaldi vega, flýta nýbyggingu vega svo sem í Árneshreppi og Vesturbyggð og hefja jarðgagnagerð að nýju.

Þá ætlast fundurinn til þess að flug til Vestfjarða verði tryggt í framtíðinni.“

Utanríkisráðherra á Vestfjörðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra er á Vestfjörðum í dag og á morgun. Hún kom keyrandi vestur í gær, hafði veður af því að veðurspáin fyrir daginn væri ekki góð fyrir flug og fór því akandi frekar en að taka þá áhættu að láta veðrið spilla skipulagðri dagskrá.

Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Ísafirði og Patreksfirði og þá fer fram opinn kvöldfundur á Ísafirði. Tímasetningar eru sem segir:

  • Opinn viðtalstími í Vestfjarðastofu – mánudaginn 17. mars kl. 16.00-18.00
  • Opinn fundur á Dokkunni á Ísafirði – mánudaginn 17. mars kl. 20.00
  • Opinn viðtalstími á bæjarskrifstofu Vesturbyggðar – þriðjudaginn 18. mars kl. 16.00-18.00

Í stuttu samtali Bæjarins besta við Þorgerði Katrínu kom fram hjá henni að hún myndi í dag hitta sveitarstjóra á norðanverðum Vestfjörðum og eiga með þeim fund. Þá væri á dagskránni að fara í heimsókn í Kerecis á Ísafirði og hitta lögreglustjórann á Vestfjörðum. Sem utanríkis- og varnarmálaráðherra þá yrði auðvitað farið upp á Bolafjall í Ratsjárstöðina sem þar er og hitta starfsmenn stöðvarinnar.

Utanríkisráðherra hafði á orði að vegirnir í Dölunum væru slæmir og sagði að það væri verkefni ríkisstjórnarinnar að finna meira fé í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu. Ástandið væri þannig að það væri skilljanlegt að kallað væri eftir því um allt land.

Þorgerður Katrín lafði áherslu á að það væri eitt af verkefnum utanríkisráðherra að gæta að hagsmunum útflutningsatvinnuveganna og nú þyrfti að leitast við að sigla framhjá tollastríði sem myndi hafa alvarleg áhrif laxeldið og sjávarútveginn, að ekki væri talað um ferðaþjónustuna.

Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – Peter Weiss lætur af störfum

Frá aðalfundi Háskólastursins. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn var haldið upp á 20 ára afmæli Háskólasetur Vestfjarða. Fulltrúaráð Háskólasetursins kom saman í Vestrahúsinu og hélt aðalfund. Þá voru veglegar veitingar, kvennakór Ísafjarðar söng og Vestfjarðastofa stóð fyrir málstofu um uppbyggingu þekkingar í fjórðungnum. Þar var velt upp spurningunni hvað væri næst í uppbyggingu þekkingar.

Mikið fjölmenni var samankomið í Háskólasetrinu til að fagna þessum tímamótum.

Kvennakór Ísafjarðar var undir stjórn Rúnu Esradóttur.

Málstofa Vestfjarðastofu um uppbyggingu þekkingar. Gylfi Ólafsson, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða stjórnaði umræðum. Á myndinni má sjá Gauta Geirsson, Háafelli, Dóróteu Hreinsdóttur, M.Í., Guðmund Fertram Sigurjónsson, Kerecis, Margréti Jónsdóttur Bifröst og Ragnheiði I. Þórarinsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Peter Weiss lætur af störfum í haust

Á aðalsfundinum tilkynnti Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins frá upphafi að hann hygðist láta af störfum í haust. Eftir tuttugu ára starf fyndist honum komi tími til að breyta til. Í ávarpi sínu sagði Peter m.a.

„Ég tel mig hafa gefið Háskólasetri það sem ég er bestur í: Trú á framtíðina, að greina möguleika, vera skýr í stefnumótun, agaður í fjárhagsmálum, koma nýrri stofnun vel af stað og vinna henni traust. Háskólasetur Vestfjarða nýtur góðs af miklum stöðugleika, mikilli festu, í stjórn og hjá starfsfólki. En það þarf líka endurnýjun. Nú er tími kominn að aðrir taki við.“ og lauk máli sínu með því að segja „Ég er óendanlega þakklátur fyrir að mild örlög hafa skolað mér á einmitt þessa strönd, þar sem mér var treyst fyrir Háskólasetri Vestfjarða í heil tuttugu ár.“

Vestfirðingar á vængjum vona

Vonin er góður árbítur en vondur kvöldskattur sagði Francis Bacon – það hafa þeir örugglega reynt sem búa við örbirgð.

Stundum er vonin eina haldreipið þegar á móti blæs en hún er ekki lausn – hún er hugarástand – friðþæging hugans í erfiðum aðstæðum.

Sagt er að þeir sem lengi hafa þurft að bíða verði litlu fegnir á endanum – svo mögulega er íslensk biðlistamenning úthugsað sálfræðitrikk ráðalausra stjórnmálamanna.

En kannski hefur vonin haldið lífinu í landsbyggðinni sem svo lengi hefur átt undir högg að sækja eða allt frá því hún var svipt lífsviðurværi sínu með ólögum.

Einhverjir vonuðu að olíuhreinsistöð gæti komið í stað sjávarútvegs á Vestfjörðum – aðrir vonuðu að vaxandi ferðamannaiðnaður væri lausnin til framtíðar og um þessar mundir vona sumir að laxeldi í hvern fjörð muni leysa vandann – já, og enn aðrir vona að ef fleiri fallvötn verði virkjuð þá muni það laða að stórhuga framkvæmdamenn með heiðarlegar fyrirætlanir vestfirðingum til framdráttar og heilla og ekki má gleyma von allra vestfirðinga um bættar samgöngur og örugglega óhætt að segja að þeir sameinist í von um að ríkisstyrkta flugfélagið okkar eina og sanna á fákeppnismarkaði hætti við að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar. En þar sem vonin ein og sér er ekki líkleg til árangurs þá þurfum við að minna flugrekstraraðila á það sem kallast samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja – ekki síst þeirra sem notið hafa ríkisstyrkja – en eiga samt alltaf afgang þegar kemur að arðgreiðslum til hluthafa.

Ekki veit ég hvaða aðferðafræði er notuð við að reikna út fargjöld og þætti mér fróðlegt að fá útskýringar í þeim efnum –  því sama dag og flugfélagið tilkynnti fyrirætlanir sínar með þeirri skýringu að flug til Ísafjarðar myndi ekki vegna fyrirsjáanlegra breytinga á flugflota lengur þjóna hagsmunum félagsins rakst ég á auglýsingu þar sem boðið var upp á flug til Tene fyrir 10.000 kr – og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafi fyrir rúmum tveimur árum greitt 70.000 kr fyrir flug milli Ísafjarðar og Reykjavíkur – aðra leið. Það er freistandi að ætla að innanlandsflugið á fákeppnismarkaði sé látið greiða niður millilandaflugið sem er í samkeppni við önnur flugfélög.

Góðar samgöngur skipta gríðalega miklu máli á landsbyggðinni þar sem öll þjónusta er orðin afar bágborin víðast hvar og því oft um langan veg að fara til að sækja hana – dæmi eru um að aka þurfi daglega um 200 km með börn í skóla – svona til samanburðar þá eru 454 km milli Reykjavíkur og Ísafjarðar ef farin er Djúpleiðin. Svona nokkuð er eiginlega óásættanlegt.

Einhverjir kunna að líta svo á að það sé sóun á fjármunum að viðhalda landsbyggðinni – en hamfarirnar á Reykjanesi ættu að sýna okkur að það er ekki skynsamlegt að tjalda öllu til á sama stað og stríðsógnir nú um stundir ættu að vekja okkur til umhugsunar um fæðuöryggi og sjálfbærni – en í þeim efnum myndi landsbyggðin gegna lykilhlutverki. Við þurfum líka að hafa í huga að það getur komið að því einn daginn að togveiðar verði bannaðar á heimsvísu sem og uppsjávarveiðar vegna ofveiði í áratugi með aðferðum sem skaða lífríki sjávar – komi til þess verður gott að geta treyst á umhverfisvænar strandveiðar. Það þarf að hugsa til framtíðar – stundargróðrarhyggjan þarf að víkja fyrir skynseminni – enda hlýtur hún alltaf að vera með heillavænlegustu lausnirnar.

Landsbyggðin er háðari samgöngum nú en þegar allt til daglegra þarfa var í nærumhverfi – hér áður fyrr gat fólk líka frekar treyst á hvort annað en nú á dögum sérhyggju.

Þegar ég var að alast upp á Flateyri þá voru allir í því litla samfélagi meðvitaðir um hverjir væru liðtækir og við hvað – allir skiptu máli og enginn skoraðist undan samfélagslegri ábyrgð sama hvar í stétt þeir stóðu. Lína á Básum sem var fötluð tók til dæmis stundum að sér að aðstoða börn sem áttu erfitt með lestur og það hefur að líkindum örlítið drýkt tekjur hennar – en svo var skólastjórinn kallaður til þegar óhöpp áttu sér stað þegar svo bar undir að læknislaust var – hann gat veitt fyrstu hjálp og ég held hann hafa meira að segja einnig tekið á móti barni við erfiðar aðstæður – já, og jafnvel fleirum.

Ég var orðin nokkuð stálpuð þegar ég heyrði talað um fötlun – í mínum huga samanstóð litla samfélagið sem ég lifði og hrærðist í af fólki sem var misvel í stakk búið til að takast á við hlutina – sumir svolítið skrítnari en aðrir – en fólk gat treyst á hvort annað þrátt fyrir stöku væringar öðru hvoru.

Þetta var fyrir tíma sjúkdómavæðingar – þegar ekki þótti nauðsynlegt að allir væru steyptir í sama mót – áður en meðalmanneskjan var hönnuð – sem hvorki má vera of né van svo meðalmennskan fái notið sín.

Það er fleira en samgöngur og tryggt atvinnulíf sem samfélög út á landi þurfa að hafa í lagi –  það þarf líka að huga að orðsporinu – en það er dýrmætt hverju samfélagi sem vill laða til sín. Það eru ráðandi öfl á hverjum stað sem marka þau spor – hinir feta svo slóðina með fáum undantekningum. Það er ekki nóg að vona að orðsporið sé gott – það þarf að vinna að því að heilindum.

Íslendingar kannast allir við samsúrruð ættarveldi – það er ekki óalgengt að tvær til fjórar ættir ráði lögum og lofum í stærri samfélögum á landsbyggðinni. Þegar flæða fer svo undan þessum samfélögum og þau að flosna upp þá verða þessar ættir meira áberandi og valdameiri og smá saman fara þær að miða allt við eigin þarfir og væntingar þó þær gangi í berhögg við hagsmuni heildarinnar. Þetta er ávísun á stöðnun sem varað getur í áratugi því sjálftekið ættarvaldið erfist gjarnan milli kynslóða – ættarsprotarnir snúa aftur að námi loknu fjarri heimabyggð í öryggi ættarhreiðranna – þar bíða svo frátekin störf eða embætti. Svona „hefðir “ geta staðið samfélögum fyrir þrifum ef aðhaldið er ekkert.

Um þetta er auðvitað ekkert rætt opinberlega – en vissulega við eldhúsborðin.

Það mun sennilega seint takast að uppræta þrælslund íslendinga. Meðfædd þrælslundin hefur komið í veg fyrir að íslendingar hafi getað sameinast gegn hvers konar ofríki – það hafa alltaf verið einhverjir sem hafa verið falir og þá er sundrungin vís – í skjóli hennar hefur ofríkið svo getað athafnað sig.

Það er þekkt aðferð pólutíkusa að búa til þrætuepli að fleygja fyrir lýðinn að bítast um svo þeir geti í friði unnið að því sem þeim finnst meira aðkallandi – eins og til dæmis helmingaskipti og kvótakerfi og nú er talað um að leiðtogar stórveldana  hafi verið að skipta með sér norðurslóðum í spekt á meðan athygli annarra leiðtoga var öll á Úkraínustríðinu – þetta þætti mér efasemdamanneskjunni ekki ótrúlegt.

Íslensk stjórnvöld hafa alltaf verið mjög höll undir þau bandarísku og verið ötul við að tileinka sér þeirra frjálshyggjutakta – enda stjórnarfarið á Íslandi líkara því bandaríska en norræna velferðarmódelinu sem við svo oft berum okkur saman við og almenningur vill fylgja. Það er í raun fátt á Íslandi sem minnir á norræna velferð – Ísland sem er ein ríkasta þjóð í heimi hefur ekki lengur efni á að viðhalda lágmarks velferðarþjónustu því auðlindir þjóðarinnar hafa verið einkavæddar. Ein mikilvægasta stoð samfélagsins heilbrigðiskerfið hefur einnig verið einkavætt að ég tel þó annað sé látið í veðri vaka. Mér er nær að halda að læknastéttin hafi verið að einkavæða það hægt og hljótt bakdyramegin – að líkindum með blessun stjórnvalda. Nú er svo komið að það fást varla læknar til starfa út á landi nema sem verktakar – þeir geta sem sjálfstætt starfandi farið á milli stofnana út á landi og gengið þar inn á þokkalega búnar stofnanir með hlustapípurnar sínar í vasanum. Hvað er það annað en dulbúin einkavæðing þegar nánast öll starfsemi inn á stofnunum er aðkeypta verktakaþjónusta – en heilbrigðiskerfið er ekki bara að kaupa verktakaþjónustu af læknastéttinni. Heilbrigðiskerfið er eiginlega að verða eins og ríkisstyrktur einkarekstur.

Ég er ekki bjartsýn á að landsbyggðin verði endurreist nema sem einhvers konar bækistöð erlendra auðhringa. Ég held að við sem þjóð höfum fyrir löngu glatað lýðræðisvaldi okkar. við höfum verið blekkt – það hefur verið pukrað með hlutina bak við tjöldin og einkavætt grimmt gegn vitund og vilja almennings. Við vitum heldur ekki hversu mikið er búið að selja af landinu til erlendra auðmanna með óljós áform – við vitum heldur ekki hvort erlendir aðilar hafi komist yfir nýtingarrétt til sjávar í gegnum eignaflækjur í sjávarútvegi – við vitum heldur ekki upp á hvað nýjustu samningar við Bandaríkin hljóða og við vissum heldur ekki af hernaðarbrölti þeirra á Suðurnesjum nú fyrr en löngu eftir að það hófst – sem undirstrikar virðingarleysi ráðamanna gagnvart þjóðinni og hversu sjálfsagt og eðlilegt þeim þykir að vaða yfir hana.

Við erum illa upplýst þjóð sem lengi hefur vonað að hlustað verði eftir vilja hennar – ég held að það sé borin von að það verði nokkru sinni gert. Manneskjan er hætt að skipta máli – mennskan er að glatast – það ströglar bara hver í sínu horni – manneskjurnar eru bara hlekkir í virðiskeðju auðvaldsins sem skipta má út eftir þörfum.

Öryggisnet þess velferðarkerfis sem þjóðin eitt sinn byggði upp er ekki lengur til – frjálshyggjan með sína einkavæðingadrauma og gróðrarvonir hefur rifið það niður – almenningur því varnarlaus þegar mest liggur við.

Það getur verið erfitt að halda í vonina þegar svona er komið.

                                                                          Þeir vita það best, hvað vetur er,

                                                                          sem vorinu heitast unna.

                                                                                                 Davíð Stefánsson 

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Sósíalisti og lífsreyndur eldri borgari.

Minning: Guðmundur Steinarr Gunnarsson

F. 14. maí 1933 – d. 14. febrúar 2025.

Guðmundur var upprunninn í hinum víðáttumikla og grösuga Valþjófsdal í Önundarfirði. Frá náttúrunnar hendi er dalurinn fögur og blómleg byggð og hefur ræktun góðbænda aukið enn við prýði hans og nytjar.

Ungur var hann nemandi síra Eiríks J. Eiríkssonar, skólastjóra á Núpi. Fullorðinn var hann einn brautryðjenda í vestfirskri vegagerð. Hann vann lengi undir stjórn Lýðs Jónssonar, en varð seinna héraðs- og rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Hann aflaði sér flugmannsréttinda og var þaulkunnugur flugvöllunum í héraðinu. Hann velti því fyrir sér, hvort flugvöllur á Sveinseyrarodda í Dýrafirði gæti komið íbúum á norðanverðum Vestfjörðum til góða, bæði í innan- og utanlandsflugi.

Guðmundur var bókamaður, vel máli farinn og áhugasamur um íslenska tungu. Ósjaldan færði hann í tal, hve mjög málfæri landa okkar væri tekið að hraka – og hann gat hlegið dátt að rollu eins og þessari, þótt undir niðri tregaði hann meðferðina á móðurmálinu:

„Heilt yfir hljóta jú lausnamiðaðir einstaklingar auðvitað líkt og að fókusera á þær gríðarlegu áskoranir, sem koma á þeirra borð á í-meilnum gagnvart innviðunum, sem eru jú auðvitað á pari við nýja vínkilinn á einni sviðsmyndinni í stóra samhenginu. En þá er bara ekki tekið mark á’ussu og ekkert hlustað á’etta, heldur er umræðan tekin á breiðum grundvelli hægri vinstri, eins og enginn sé morgundagurinn – við aðila sem á þessum level eru útsettir fyrir smit, en eru samt ekki að fatta mikilvægi sóttkvís, basically, svo það sé sagt, þú veist …“

Djúpt í hugarfylgsnum hans djarfaði fyrir þeim grun, að hann væri að langfeðgatali kominn af húgenottum, en svo nefndust franskir mótmælendur, kalvínstrúar, sem ofsóttir voru eftir að Loðvík 14. komst til valda í Frakklandi. Árið 1685 svipti konungur þá öllum réttindum og flýðu þeir þá til nálægra landa.  Einn forfeðra Guðmundar hét Jens Viborg. Og nokkuð var það, að Guðmundur var ekki ólíkur sumum fransmönnum í útliti: svarthærður, dökkur á hörund og brúneygður.  

Guðmundur var kvæntur manna best. Geira var einstök kona að manngæðum, glaðlynd, góðviljuð og vinföst, trúuð og kirkjurækin, vissi, að máttur bænarinnar er mikill og hún lýsti því einatt, hversu hún hefði hlotið blessun í guðsþjónustunni. Hún las oft í Biblíunni, sálmabókinni og Passíusálmunum og lét uppbyggjast af heilögu orði.

Við verðum alla ævi þakklát fyrir það, hve annt þau hjónin létu sér um okkur allt frá fyrstu dögunum vestra. Þegar leiðir allar heim til okkar voru á kafi í fönn, misjafnra veðra von og Hvilftarströndin stórvarasöm sakir flóðahættu, hringdi síminn og það var þá Guðmundur að bjóðast til þess að koma með til okkar, ef okkur vantaði úr búðinni hjá Laufeyju á Flateyri.

Þegar heilsu konu hans tók að hraka, komu í ljós nýjar hliðar á Guðmundi. Erfitt er að hugsa sér meiri ástúð og natni en hann sýndi Geiru síðustu árin. Hann sá um innkaupin, þreif, eldaði og bakaði meira að segja; snerist í kringum konu sína og hlúði að henni á alla lund.

Með miklum söknuði, þökk og bæn um blessun Guðs kveðjum við elskulegan tryggðavin. Við biðjum Guð um frið yfir legstað hans, og um blessun yfir endurfundi hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Við felum Guðmund Steinar Gunnarsson orði Guðs náðar. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.

Gunnar Björnsson
pastor emeritus.

 pastor emeritus.

Nýjustu fréttir