Vonin er góður árbítur en vondur kvöldskattur sagði Francis Bacon – það hafa þeir örugglega reynt sem búa við örbirgð.
Stundum er vonin eina haldreipið þegar á móti blæs en hún er ekki lausn – hún er hugarástand – friðþæging hugans í erfiðum aðstæðum.
Sagt er að þeir sem lengi hafa þurft að bíða verði litlu fegnir á endanum – svo mögulega er íslensk biðlistamenning úthugsað sálfræðitrikk ráðalausra stjórnmálamanna.
En kannski hefur vonin haldið lífinu í landsbyggðinni sem svo lengi hefur átt undir högg að sækja eða allt frá því hún var svipt lífsviðurværi sínu með ólögum.
Einhverjir vonuðu að olíuhreinsistöð gæti komið í stað sjávarútvegs á Vestfjörðum – aðrir vonuðu að vaxandi ferðamannaiðnaður væri lausnin til framtíðar og um þessar mundir vona sumir að laxeldi í hvern fjörð muni leysa vandann – já, og enn aðrir vona að ef fleiri fallvötn verði virkjuð þá muni það laða að stórhuga framkvæmdamenn með heiðarlegar fyrirætlanir vestfirðingum til framdráttar og heilla og ekki má gleyma von allra vestfirðinga um bættar samgöngur og örugglega óhætt að segja að þeir sameinist í von um að ríkisstyrkta flugfélagið okkar eina og sanna á fákeppnismarkaði hætti við að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar. En þar sem vonin ein og sér er ekki líkleg til árangurs þá þurfum við að minna flugrekstraraðila á það sem kallast samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja – ekki síst þeirra sem notið hafa ríkisstyrkja – en eiga samt alltaf afgang þegar kemur að arðgreiðslum til hluthafa.
Ekki veit ég hvaða aðferðafræði er notuð við að reikna út fargjöld og þætti mér fróðlegt að fá útskýringar í þeim efnum – því sama dag og flugfélagið tilkynnti fyrirætlanir sínar með þeirri skýringu að flug til Ísafjarðar myndi ekki vegna fyrirsjáanlegra breytinga á flugflota lengur þjóna hagsmunum félagsins rakst ég á auglýsingu þar sem boðið var upp á flug til Tene fyrir 10.000 kr – og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafi fyrir rúmum tveimur árum greitt 70.000 kr fyrir flug milli Ísafjarðar og Reykjavíkur – aðra leið. Það er freistandi að ætla að innanlandsflugið á fákeppnismarkaði sé látið greiða niður millilandaflugið sem er í samkeppni við önnur flugfélög.
Góðar samgöngur skipta gríðalega miklu máli á landsbyggðinni þar sem öll þjónusta er orðin afar bágborin víðast hvar og því oft um langan veg að fara til að sækja hana – dæmi eru um að aka þurfi daglega um 200 km með börn í skóla – svona til samanburðar þá eru 454 km milli Reykjavíkur og Ísafjarðar ef farin er Djúpleiðin. Svona nokkuð er eiginlega óásættanlegt.
Einhverjir kunna að líta svo á að það sé sóun á fjármunum að viðhalda landsbyggðinni – en hamfarirnar á Reykjanesi ættu að sýna okkur að það er ekki skynsamlegt að tjalda öllu til á sama stað og stríðsógnir nú um stundir ættu að vekja okkur til umhugsunar um fæðuöryggi og sjálfbærni – en í þeim efnum myndi landsbyggðin gegna lykilhlutverki. Við þurfum líka að hafa í huga að það getur komið að því einn daginn að togveiðar verði bannaðar á heimsvísu sem og uppsjávarveiðar vegna ofveiði í áratugi með aðferðum sem skaða lífríki sjávar – komi til þess verður gott að geta treyst á umhverfisvænar strandveiðar. Það þarf að hugsa til framtíðar – stundargróðrarhyggjan þarf að víkja fyrir skynseminni – enda hlýtur hún alltaf að vera með heillavænlegustu lausnirnar.
Landsbyggðin er háðari samgöngum nú en þegar allt til daglegra þarfa var í nærumhverfi – hér áður fyrr gat fólk líka frekar treyst á hvort annað en nú á dögum sérhyggju.
Þegar ég var að alast upp á Flateyri þá voru allir í því litla samfélagi meðvitaðir um hverjir væru liðtækir og við hvað – allir skiptu máli og enginn skoraðist undan samfélagslegri ábyrgð sama hvar í stétt þeir stóðu. Lína á Básum sem var fötluð tók til dæmis stundum að sér að aðstoða börn sem áttu erfitt með lestur og það hefur að líkindum örlítið drýkt tekjur hennar – en svo var skólastjórinn kallaður til þegar óhöpp áttu sér stað þegar svo bar undir að læknislaust var – hann gat veitt fyrstu hjálp og ég held hann hafa meira að segja einnig tekið á móti barni við erfiðar aðstæður – já, og jafnvel fleirum.
Ég var orðin nokkuð stálpuð þegar ég heyrði talað um fötlun – í mínum huga samanstóð litla samfélagið sem ég lifði og hrærðist í af fólki sem var misvel í stakk búið til að takast á við hlutina – sumir svolítið skrítnari en aðrir – en fólk gat treyst á hvort annað þrátt fyrir stöku væringar öðru hvoru.
Þetta var fyrir tíma sjúkdómavæðingar – þegar ekki þótti nauðsynlegt að allir væru steyptir í sama mót – áður en meðalmanneskjan var hönnuð – sem hvorki má vera of né van svo meðalmennskan fái notið sín.
Það er fleira en samgöngur og tryggt atvinnulíf sem samfélög út á landi þurfa að hafa í lagi – það þarf líka að huga að orðsporinu – en það er dýrmætt hverju samfélagi sem vill laða til sín. Það eru ráðandi öfl á hverjum stað sem marka þau spor – hinir feta svo slóðina með fáum undantekningum. Það er ekki nóg að vona að orðsporið sé gott – það þarf að vinna að því að heilindum.
Íslendingar kannast allir við samsúrruð ættarveldi – það er ekki óalgengt að tvær til fjórar ættir ráði lögum og lofum í stærri samfélögum á landsbyggðinni. Þegar flæða fer svo undan þessum samfélögum og þau að flosna upp þá verða þessar ættir meira áberandi og valdameiri og smá saman fara þær að miða allt við eigin þarfir og væntingar þó þær gangi í berhögg við hagsmuni heildarinnar. Þetta er ávísun á stöðnun sem varað getur í áratugi því sjálftekið ættarvaldið erfist gjarnan milli kynslóða – ættarsprotarnir snúa aftur að námi loknu fjarri heimabyggð í öryggi ættarhreiðranna – þar bíða svo frátekin störf eða embætti. Svona „hefðir “ geta staðið samfélögum fyrir þrifum ef aðhaldið er ekkert.
Um þetta er auðvitað ekkert rætt opinberlega – en vissulega við eldhúsborðin.
Það mun sennilega seint takast að uppræta þrælslund íslendinga. Meðfædd þrælslundin hefur komið í veg fyrir að íslendingar hafi getað sameinast gegn hvers konar ofríki – það hafa alltaf verið einhverjir sem hafa verið falir og þá er sundrungin vís – í skjóli hennar hefur ofríkið svo getað athafnað sig.
Það er þekkt aðferð pólutíkusa að búa til þrætuepli að fleygja fyrir lýðinn að bítast um svo þeir geti í friði unnið að því sem þeim finnst meira aðkallandi – eins og til dæmis helmingaskipti og kvótakerfi og nú er talað um að leiðtogar stórveldana hafi verið að skipta með sér norðurslóðum í spekt á meðan athygli annarra leiðtoga var öll á Úkraínustríðinu – þetta þætti mér efasemdamanneskjunni ekki ótrúlegt.
Íslensk stjórnvöld hafa alltaf verið mjög höll undir þau bandarísku og verið ötul við að tileinka sér þeirra frjálshyggjutakta – enda stjórnarfarið á Íslandi líkara því bandaríska en norræna velferðarmódelinu sem við svo oft berum okkur saman við og almenningur vill fylgja. Það er í raun fátt á Íslandi sem minnir á norræna velferð – Ísland sem er ein ríkasta þjóð í heimi hefur ekki lengur efni á að viðhalda lágmarks velferðarþjónustu því auðlindir þjóðarinnar hafa verið einkavæddar. Ein mikilvægasta stoð samfélagsins heilbrigðiskerfið hefur einnig verið einkavætt að ég tel þó annað sé látið í veðri vaka. Mér er nær að halda að læknastéttin hafi verið að einkavæða það hægt og hljótt bakdyramegin – að líkindum með blessun stjórnvalda. Nú er svo komið að það fást varla læknar til starfa út á landi nema sem verktakar – þeir geta sem sjálfstætt starfandi farið á milli stofnana út á landi og gengið þar inn á þokkalega búnar stofnanir með hlustapípurnar sínar í vasanum. Hvað er það annað en dulbúin einkavæðing þegar nánast öll starfsemi inn á stofnunum er aðkeypta verktakaþjónusta – en heilbrigðiskerfið er ekki bara að kaupa verktakaþjónustu af læknastéttinni. Heilbrigðiskerfið er eiginlega að verða eins og ríkisstyrktur einkarekstur.
Ég er ekki bjartsýn á að landsbyggðin verði endurreist nema sem einhvers konar bækistöð erlendra auðhringa. Ég held að við sem þjóð höfum fyrir löngu glatað lýðræðisvaldi okkar. við höfum verið blekkt – það hefur verið pukrað með hlutina bak við tjöldin og einkavætt grimmt gegn vitund og vilja almennings. Við vitum heldur ekki hversu mikið er búið að selja af landinu til erlendra auðmanna með óljós áform – við vitum heldur ekki hvort erlendir aðilar hafi komist yfir nýtingarrétt til sjávar í gegnum eignaflækjur í sjávarútvegi – við vitum heldur ekki upp á hvað nýjustu samningar við Bandaríkin hljóða og við vissum heldur ekki af hernaðarbrölti þeirra á Suðurnesjum nú fyrr en löngu eftir að það hófst – sem undirstrikar virðingarleysi ráðamanna gagnvart þjóðinni og hversu sjálfsagt og eðlilegt þeim þykir að vaða yfir hana.
Við erum illa upplýst þjóð sem lengi hefur vonað að hlustað verði eftir vilja hennar – ég held að það sé borin von að það verði nokkru sinni gert. Manneskjan er hætt að skipta máli – mennskan er að glatast – það ströglar bara hver í sínu horni – manneskjurnar eru bara hlekkir í virðiskeðju auðvaldsins sem skipta má út eftir þörfum.
Öryggisnet þess velferðarkerfis sem þjóðin eitt sinn byggði upp er ekki lengur til – frjálshyggjan með sína einkavæðingadrauma og gróðrarvonir hefur rifið það niður – almenningur því varnarlaus þegar mest liggur við.
Það getur verið erfitt að halda í vonina þegar svona er komið.
Þeir vita það best, hvað vetur er,
sem vorinu heitast unna.
Davíð Stefánsson
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Sósíalisti og lífsreyndur eldri borgari.