Í umsögn Vesturbyggðar um fyrirhugaðar breytingar á veiðigjöldum í sjávarútvegi segir að Vesturbyggð geri ekki athugasemdir við sanngjarna gjaldtöku af auðlindum þjóðar, þar á meðal sjávarafurðum.
Vesturbyggð hafi hinsvegar miklar áhyggjur af áhrifum frumvarpsins á minni og meðalstórar útgerðir og fiskvinnslur ásamt þeim sjávarbyggðum þar sem þær starfa. Aukin gjaldtaka geti haft umfangsmikil áhrif á greinina sem leitt geta til aukinnar samþjöppunar með tilheyrandi fækkun starfa.
Í umsögninni segir að stór hluti tekna Vesturbyggðar komi frá útgerð og vinnslu í sveitarfélaginu. Frumvarpið geti því haft veruleg neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins og burði þess til að viðhalda sterku og lifandi samfélagi.
vilja hækka frítekjumark og stefnu um ráðstöfun gjaldsins
Vesturbyggð skorar á stjórnvöld gera breytingar á frumvarpinu með hækkun á frítekjumarki svo tryggja megi áframhaldandi rekstur minni og meðalstórra útgerða víðsvegar um landið.
Vesturbyggð telur mikilvægt að samhliða framlagningu frumvarpsins verði unnin skýr stefnumörkun um ráðstöfun veiðigjaldsins af hálfu ríkisins.