Fram kemur í umsögn Ísafjarðarbæjar um 4.500 tonna aukningu Arnarlax á laxeldi í Arnarfirði,sem skipulags- og mannvirkjanefnd hefur samþykkt, að Ísafjarðarbær gerir ekki efnislegar athugasemdir við umhverfismatsskýrsluna að svo stöddu. En telur mikilvægt að framkvæmd sé í samræmi við strandsvæðaskipulag og aðalskipulag þar sem við á.
En Ísafjarðarbær leggur áherslu á að vöktunaráætlanir verði þróaðar þannig að þær tengist skýrum viðmiðunarmörkum og aðgerðaráætlunum. Vöktunaráætlanir þurfi að tengjast skýrum viðmiðum um mörk og viðbrögð. Fram komi hvernig þróun í notkun lyfja og breytingar á eldistækni muni hafa áhrif á efnaupptöku, vistkerfi sjávar og vöktunarskyldu.
Þá kemur fram í umsögninni að Ísafjarðarbær gerir ekki formlegar athugasemdir við niðurstöður áhættumats siglinga. Í fyrirliggjandi áhættumati siglinga, einkum fyrir fiskeldissvæðið við Tjaldaneseyrar, komi fram að breidd siglingaleiða á svæðinu (um 1.100 metrar) uppfylli kröfur Vegagerðar um öryggisrými. Merkingar með AIS sendum og radarsendum séu fyrir hendi og rekstraraðili hafi lýst ábyrgð á viðhaldi þeirra. Mikilvægt sé að áhættumatið verði endurskoðað reglulega.
Ísafjarðarbær en leggur áherslu á varðandi áhættumat siglinga að tryggt verði reglubundið eftirlit með öllum merkingum og að rekjanleiki gagnaskráningar vegna bilana og endurnýjunar búnaðar sé sýnilegur.
Vesturbyggð:
Í umsögn umhverfis- og loftslagsráðs Vesturbyggðar um sama mál segir hins vegar að umhverfis- og loftslagsráð telur að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, nýtt umhverfismat og aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila, þar sem um verulega stækkun á svæðum er að ræða. Einnig þarf að auka tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum. Þá er sett spurning við stækkun eldissvæða.
Ólíkar umsagnir
Þessar umsagnir sveitarfélaganna tveggja sem hlut eiga að máli í Arnarfirði eru mjög ólíkar. Í umsögn Ísafjarðarbæjar er hvorki minnst á að umsóknin um aukningu þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags né að þurfi nýtt umhverfismat eins og Vesturbyggð vill. Þvert á móti segir í umsögn Ísafjarðarbæjar að ekki séu gerðar efnislegar athugasemdir við umhverfismatsskýrsluna að svo stöddu. Þá er heldur ekki tekið undir kröfuna um aukið reglubundið eftirlit og ekki er minnst á stækkun eldissvæðanna.