Fjölgun veiðidaga skilaði ekki auknum afla

Grásleppuvertíðinni lauk 14. ágúst þegar bátar í innanverðum Breiðafirði drógu upp.  Vertíðin var óvenjulöng að þessu sinni alls 46 samfelldir dagar sem hver bátur mátti vera að, en undanfarin fjögur ár hafa dagar verið 32. Fjölgun veiðidaga leiddi þó ekki til aukningar afla milli ára.  Alls veiddust  4.542 tonn af heilli grásleppu, sem jafngildir milli 8.600 og 8.700 tunnum af hrognum.  Veiðin á árinu 2016 skilaði 5.425 tonnum þannig að samdrátturinn varð um 16%.

Eftir að veiði á hvern dag hafði aukist 5 ár í röð, brá nú svo við að hún minnkaði um rúman þriðjung. Á vef Landssambands smábátaeigenda segir að fara þurfi allt aftur til vertíðarinnar 2012 til að finna lakari veiði á hvern úthaldsdag heldur en á síðustu vertíð.

Þátttaka í veiðunum var framar vonum, þar sem í upphafi vertíðar leit út fyrir að fáir ætluðu til veiða.  Helsta ástæða þess var óánægja með verð sem kaupendur buðu. Eftir samstillt átak veiðimanna tóku kaupendur við sér og verð hækkuðu.

Alls stunduðu 250 bátar grásleppuveiðar á síðustu vertíð sem eru 5 fleiri en á árinu 2016. Munar þar mestu um mikla fjölgun í innanverðum Breiðafirði, en á B-svæðinu öllu fjölgaði um 22 báta milli ára.

Veiði á vertíðinni var víðast hvar lakari en í fyrra. Mestu sveiflurnar voru á veiðisvæði D, sem eru Strandir og Húnaflói, þar náði veiðin ekki helming þess sem hún var í fyrra.  Í Breiðafirði jókst veiðin hins vegar um 82%.

DEILA