Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá hafði verið stöðvaður við umferðareftirlit á Vestfjarðarvegi, í Arnkötludal. Lögreglan hafði auk þess mælt hraða bifreiðarinnar yfir hámarkshraða. Þá kom í ljós að ökumaðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Við leit í bifreið mannsins fundust kannabisefni sem voru haldlögð.
Alls voru 26 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum,
Lögreglunni bárust alls þrjár tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu nýliðna viku. Atvikin urðu við Arnarnes, í Hestfirði og Álftafirði.
Skráningarplötur voru teknar af þremur ökutækjum í Bolungarvík. En viðkomandi ökutæki höfðu ekki verið færð til lögbundinnar skoðunar. Bifreiðaeigendur eru hvattir til að sinna þessum þætti í tíma svo ekki komi til gjalds og eða þess óhagræðis að ökutæki séu tekin úr umferð með þessum hætti.
Tilkynnt var um 6 umferðaróhöpp í liðinni viku. Í tveimur tilvikum var um bílveltu að ræða. Slys á ökumönnum og farþegum urðu ekki alvarleg í þessum tilvikum en tjón á ökutækjum töluvert.
Í vikunni lagði lögreglan hald á eitt skotvopn og skotfæri. Umráðamaður þessa hafði farið óvarlega með vopnið og varsla þessara hluta ekki lögum samkvæmt.