Breytingar verða gerðar á þjónustu Póstsins á Hólmavík þann 29. apríl næstkomandi þegar
þjónustan flyst úr Sparisjóði Strandamanna yfir í Krambúðina, Höfðatúni 4. Þjónustan verður
að mestu með óbreyttu sniði.
„Við erum ávallt að leita leiða til að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur
neytenda samhliða hagkvæmum rekstri,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa.
„Við höfum fundið fyrir mikilli ánægju viðskiptavina með sjálfvirkar afhendingarleiðir. Því
munum við bæta við afhendingarleiðum á borð við Póstbox og heimsendingu á Hólmavík og
teljum að þær viðbætur verði íbúum til hægðarauka.“
Að lokum þakkar hann Sparisjóðnum gott samstarf. „Við þökkum Sparisjóði Strandamanna
kærlega fyrir gott samstarf í gegnum árin og hlökkum um leið til komandi samstarfs með
Krambúðinni.“
Hvernig verður þjónustan á Hólmavík eftir breytingarnar?
Afgreiðsla Póstsins í Krambúðinni er opin alla virka daga kl. 11:00-15:00, þar er hægt að
póstleggja og fá afhent og kaupa frímerki og umbúðir.
Póstbox er staðsett við Krambúðina og þar er hægt að sækja og senda pakka. Til að senda
með Póstboxi þarf að skrá sig í Póst-appið eða á Mínar síður á posturinn.is og setja inn
kortaupplýsingar. Hægt er að áframsenda SMS-skilaboðin til að fá einhvern annan til að
sækja í Póstbox.
Pakkasendingar er hægt að fá sendar í Póstbox, í afgreiðslu eða keyrðar heim að dyrum.
Bréfum er dreift tvisvar í viku og þeir sem eru með pósthólf munu fá bréfasendingar sínar
afhentar í Krambúðinni. Hægt er að kaupa frímerki og umbúðir í Krambúðinni og póstkassi
verður við búðina svo hægt er að póstleggja bréf þar.
Landpóstaþjónusta helst óbreytt og bréfum og pökkum áfram dreift tvisvar í viku í
nærliggjandi sveitir.
Á posturinn.is má finna ítarefni og upplýsingar um fjölbreytta þjónustu Póstsins. Auk þess er
viðskiptavinum velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000 eða í gegnum
netspjall á heimasíðunni.
