Vesturbyggð: tekur illa í aukið laxeldi í Arnarfirði

Arnarfjörður.

Umhverfis- og loftslagsráð Vesturbyggðar tók fyrir á síðasta fundi sínum beiðni Arnarlax um umsögn vegna aukningar á umfangi sjókvíaeldis fyrirtækisins í Arnarfirði úr 11.500 tonna hámarkslífmassa í 16.000 tonn ásamt stækkun eldissvæða úr 5,9 km2 í 29 km2.

Í bókun nefndarinnar segir að umhverfis- og loftslagsráð telji að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, nýtt umhverfismat og aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila, þar sem um verulega stækkun á svæðum er að ræða. Einnig þurfi að auka tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum til að minnka líkur á slysasleppingum.
Þá segir nefndin að með þessum miklu stækkunum sé ekki ljóst hvernig gert er ráð fyrir rými fyrir aðra starfsemi í firðinum.

Um stækkun eldissvæða segir nefndin að þetta sé gert til að auka sveigjanleika kvíabóla og dreifa úrgangi yfir stærra svæði. „Því er óskýrt hvort sú þörf sé vegna neikvæðra áhrifa eldis á núverandi svæði eða hvort stækkunin sé til að dreifa uppsöfnun yfir lengri tíma á stærra svæði. Minnst er á möguleikann að færa kvíar á grynnra, straumharðara svæði sem eykur sjónmengun og dreifir mögulega úrgangi út fyrir eftirlitssvæði.“

Umsögn nefndarinnar lýkur með orðunum : Umhverfis- og loftslagsráð ítrekar mikilvægi varúðarreglunnar og að vísindalegri nálgun sé beitt við ákvarðanir er varða umhverfismál.

Bæjarins besta sendi fyrirspurn á Gerði B. Sveinsdóttur, bæjarstjóra og innti hana eftir því hvernig bæri að skilja bókun nefndarinnar, hvort hún væri ekki bein andstaða við 4.500 tonna framleiðsluaukningu í Arnarfirði. Gerður vísaði á formann nefndarinnar Freyju Ragnarsdóttur Petersen og var fyrirspurnin framsend til hennar 2. apríl. Svar hefur ekki borist.

DEILA