Ljótur leikur Landsnets

Mynd 3. Sæstrengir í Arnarfirði. Landhelgisgæslan.

Fyrir skemmstu mátti sjá frétt á bb.is, þess efnis að Landsnet hafi sótt um framkvæmdarleyfi fyrir lagningu svokallaðrar Mjólkárlínu 2, sem fyrirhugað er að liggi frá Mjólkárvirkjun út norðanverðann Arnarfjörð og yfir fjörðinn á milli Hrafnseyrar og Bíldudals.  Fyrir mig og aðra sem fylgst hafa með málinu frá því að áformunum var ýtt úr vör í apríl 2021, voru þetta svosem ekki ný tíðindi, en þó mátti sjá þar eitt nýtt kort sem vakti áhuga undirritaðra.

Allt frá því að Landsnet kynnti áformin með; “Tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu”, dagsett 8. apríl 2021 og fram að því að minnisblað um strenglagnir í Arnarfirði (dagsett 21 nóvember 2024) er gert opinbert með ósk um framkvæmdarleyfi, hefur Landsnet og undirverktaki þess í skjalagerð, Verkís, haldið því staðfastlega fram að einungis einn ljósleiðarastrengur liggi yfir Arnarfjörð.  Sjá kort á mynd 2.

Því eru það ákveðin tíðindi að sjá áðurnefnt minnisblað dagsett 21 nóv sl. og sjá þar kortið sem kallað er mynd 1 og er nokkuð samhljóða korti frá Landhelgisgæslunni sem má sjá sem mynd 3 og fylgir þessari grein.

Undirritaðir hafa ítrekað bent á þessar rangfærslur hjá Landsnet og sem dæmi um það má nefna að ítarlegar upplýsingar voru lagðar fyrir Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar um málið og farið fram á að gerð væri valkostagreining með fleiri stöðum sem möguleikum til landtöku, en bara við Hrafnseyri.

Í minnisblaði dagsett 8. des.2022, sem Verkís vann fyrir Landsnet og Ísafjarðarbær notar sem svar við athugasemdum við breytingartillögu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar, má sjá ekki sjaldnar en 11 sinnum við 56 athugasemdum, svohljóðandi svar:

“Sæstrengur OV er óvirkur og verður fjarlægður. Helgunarsvæði strengsins er víkjandi og fellur niður þegar strengurinn hefur verið fjarlægður.”   

Svo langt hefur þessi blekking Landsnets gengið að í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar hefur þessi vestari ljósleiðarastrengur í Arnarfirði verið fjarlægður.  Það er ekki síst áfellisdómur yfir stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar, nefndarmönnum Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar og þáverandi formanni nefndarinnar, að kynna sér ekki betur gögn málsins.

En hverju skiptir einn sæstrengur ?

Þegar áformin ganga út á að leggja sæstreng yfir einhver gjöfulustu rækjumið í Arnarfirði þá skiptir það máli.  12km langur sæstrengur á þessu svæði útheimtir samkvæmt strandsvæðaskipulagi að á bilinu 900 til 1100 hektarar af veiðisvæði breytast í helgunarsvæði sæstrengs.  Væri strengurinn hinsvegar lagður samhliða öðrum hvorum ljósleiðarastrengnum, væri mestur hluti nýja helgunarsvæðisins innan núverandi helgunarsvæðis ljósleiðara og því viðbótin af helgunarsvæði aðeins brot af fyrrnefndri tölu, eða allt niður í 76 hektara.

Til þessa hefur ekki gegnið að fá vitræna umræðu við Landsnet um mögulega leið fyrir þennan nýja sæstreng yfir Arnarfjörð.  En það er í öllu falli áhugavert að sjá núna að Landsnet og Verkís viðurkenna það að helstu rök þeirra fyrir staðsetningu strengsins, eru byggðar á blekkingu.

Sigurður Hreinsson

Björn Magnús Magnússon

Stefán Egilsson

DEILA