Óheft ferðamennska er helsta ógn Hornstrandafriðlandsins. Þetta segir Jón Smári Jónsson, landvörður Umhverfisstofnunar í friðlandinu á Hornströndum. Ítarlegt viðtal er við hann á vef Umhverfisstofnunar. Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun beri ábyrgð á friðlandinu leggur hann áherslu á að stofnunin geri ein og sér ekki allt og mikilvægt sé að ná sátt og samstöðu við aðra aðila.
„Hornstrandir eru stórt svæði, landverðir „týnast“ auðveldlega inni á þessum 600 ferkílómetrum og þótt við leggjum mikla áherslu á að eiga gott samtal við landeigendur og Ísafjarðarbæ sem fer með skipulagsvald svæðisins þá þarf að nást sátt með þeim sem nýta svæðin, til dæmis ferðaþjónustunni, en nýting getur aldrei verið ofar í forgangsröðunni en þau verndargildi sem lagt er upp með. Ef maður horfir til þeirra gesta sem sækja svæðið þá eru ferðamenn í raun helsta ógnin,“ segir Jón Smári og tiltekur bæði sjónrænan ágang stórra hópa sem og álag á lífríkið.
„Þarna er mjög viðkvæmt lífríki, refurinn er friðaður og okkur Íslendingum ber skylda að vernda dýrastofna sem hér eru stórt hlutfall af heimsstofni. Skandínavíski refurinn er í útrýmingarhættu fyrir utan Svalbarða og Ísland hýsir um 90% heildarstofnsins. Þegar eitt land býr yfir svo háu hlutfalli stofns ber því að sjá refnum fyrir griðlandi og Hornstandir eru mikilvægur hluti þess. Óheft ferðamennska getur í þessu tilliti verið mikil ógn, ekki síst ef gestir eru að koma á fengi- eða grenjatíma refsins.“
Hann dendir á að aukningu ljósmyndaferða til Hornstranda til að mynda refinn. „Jafnvel til að mynda yrðlinga. Það hugnast okkur ekki, enda stangast svoleiðis ferðir við á við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem segir að óþarfa umgangur sé óheimill við greni. Það er á gráu svæði að selja svona ferðir,“ segir Jón Smári sem leggur þó áherslu á að langflestir ferðamenn hegði sér yfirleitt vel og almenn umgengni sé að hans mati á mikilli uppleið.