Í bréfi eins hluthafa í Vesturferðum ehf frá 6. mars sl. sem sent var stjórn og framkvæmdastjóra og varð til þess að aðalfundi var frestað, eru gerðar alvarlegar athugasemdir við starfshætti stjórnar og segir að hlutir hafi gengið kaupum og sölum án þess að stjórn hafi upplýst hluthafa um það og gætt að ákvæði í samþykktum félagsins sem kveður á um að stjórn hafi forkaupsrétt á öllum fölum hlutum og að félaginu frágengnu hafi hver hluthafi forkaupsrétt í samræmi við eignarhlut sinn.
Segir í bréfinu að stjórn hafi ekki virt þetta ákvæði og hafi m.a. selt hluti sem stjórnin nýtti kauprétt á til annarra en hluthafa án þess að bjóða hluthöfum forkaupsrétt. Því sé hluthafaskrá félagsins ekki rétt og lögum samkvæmt. Eigendaskipti að hlutum hafi verið ólögmæt og ábyrgð stjórnar sé mikil.
Útgefið hlutafé í Vesturferðum ehf er 12.399.000 kr. og fyrir aðalfundinum sem halda átti í þessum mánuði er lagt til að greiða 45 m.kr. í arð sem nærri fjórfalt meira en hlutafénu nemur.
Á árinu 2022 var ákveðið á fundi Ferðamálasamtaka Vestfjarða, sem var langstærsti hluthafi í Vesturferðum að selja hlutaféð til Sjóferða og Vestfirskra ævintýraferða. Samkvæmt samþykktum félagsins bar að bjóða stjórn Vesturferða hlutaféð til sölu og ef stjórnin vildi ekki kaupa að bjóða þá öðrum hluthöfum hlutina til kaups áður en nýjum aðilum var selt.
Hvetjandi var næststærsti eigandi að Vesturferðum með 2.166.434 kr. hlutafé. Það var selt í október sl. og keypti stjórnin fyrir hönd félagsins. Verðið var sama og nafnverð hlutanna. Hluthöfum var ekki boðið að kaupa hlutaféð, en selt af því til nýrra hluthafa m.a. til starfsmanna. Stærstu hluthafar samkvæmt framlögðum ársreikningi eru Sjóferðir og Vestfirskar ævintýraferðir með samtals 43% eignarhlut.
Góð afkoma hefur verið síðustu tvö ár af rekstri félagsins og tillaga um arðgreiðslu upp á 45 m.kr. gerir kaup á hlutum síðustu ár að arðbærri fjárfestingu.
Jón Auðunsson, framkvæmdastjóri félagsins hefur ekki svarað fyrirspurnum Bæjarins besta um framhald aðalfundarins sem frestað var.