Á mánudaginn lenti vegfarandi í því á Dynjandisheiðinni , við gömlu sýslumörkin, að óhapp varð og bíllinn óökufær. Hugðist hann þá hringja eftir aðstoð en þá kom í ljós að ekkert samband var. Hann fékk far með næsta bíl og voru þeir komnir niður að Dynjandisvogi þegar símasamband náðist og hægt var að kalla eftir aðstoð.
Í lok síðasta árs kom Neyðarlínan upp fjarskiptagámi á Dynjandisheiðinni, á SA verðri öxl Urðarfells, með tetra- og farsímasendum. Um er að ræða tilraunaverkefni og sagði framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar að vonast væri að með þessu tækist að tryggja öruggt fjarskiptasamband.