Alþýðusambandið vill að ríkisstjórn dragi til baka meingallað frumvarp um raforkuöryggi

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur framkomið frumvarp um breytingu á raforkulögum ófullnægjandi með öllu og  hvetur ríkisstjórnina til að draga það til baka.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn Alþýðusambandsins um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuöryggi), mál nr. 130/2025 sem birt hefur verið á vef alþingis.

Í umsögninni kveðst Alþýðusambandið fagna sýndum vilja stjórnvalda til að tryggja forgang heimila og almennra notenda að raforku sem birtist í samstarfsyfirlýsingu stjórnvalda og framlagningu þessa frumvarps. Á hinn bóginn er það mat ASÍ að frumvarpið nægi ekki til að tryggja raforkuöryggi þessara notenda.

Í umsögninni segir:

„Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við að frumvarpið feli ekki í sér neina vernd fyrir heimili og smærri fyrirtæki gegn verðhækkunum á raforku. Lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi er að tryggja að raforka sé á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að frumvarpið tryggi íslenskum heimilum örugga afhendingu á raforku er ekkert í frumvarpinu sem tryggir að sú raforka verði á viðráðanlegu verði og sem kemur í veg fyrir að almenningur og smærri fyrirtæki lendi í verðsamkeppni við stórnotendur raforku.“

Þá er vikið að sérstöðu raforkumarkaðarins sem sé gjörólíkur þeim sem tíðkist á meginlandi Evrópu:

 „Hér á landi eru stórnotendur ráðandi á raforkumarkaði og nota 80% raforkunnar en almenningur og smærri fyrirtæki samanlagt 20%. Þessu er öfugt farið í löndunum í kringum okkur. Þá er nær öll raforka sem framleidd er á Íslandi endurnýjanleg auk þess sem íslenskur raforkumarkaður er lokaður og tíma tekur að setja á fót nýjar virkjanir. Þetta þýðir að ekki er hægt að bregðast við framboðsskorti með skömmum fyrirvara og að hærra orkuverð hefur ekki sömu áhrif á framboð og eftirspurn eftir raforku hér og á meginlandi Evrópu.“

Fram kemur sú afstaða Alþýðusambandsins að framganga íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki sé með öllu óskiljanleg og beinir að lokum þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að málið verði tekið til baka:

DEILA