Hennar rödd

Hennar rödd eru sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og er bókin tímamótaverk sem heiðrar framlag kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags.

Bókin inniheldur sögur 33 kvenna sem hafa auðgað íslenskt samfélag á einn eða annan hátt, og endurspegla fjölbreytileika kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Sögurnar fjalla um áskoranirnar sem þær hafa mætt vegna skorts á inngildingu í íslensku samfélagi, jafnt og frásagnir um fallegar lífsreynslur við að flytja til nýs lands, læra nýtt tungumál og jafnvel ala upp fjölskyldur á Íslandi.

Ritstjórar bókarinnar eru Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir.

Vinna við gerð bókarinnar hefur staðið yfir í fimm ár, frá því um sumarið 2020. Við upphaf verkefnisins var leitað til almennings um tilnefningar á konum sem hafa auðgað samfélagið með einhverjum hætti og fóru viðbrögðin fram úr björtustu vonum. 

Bókin er því fjölradda frásögn, og eiga viðmælendur rætur sínar að rekja til ótalmargra landa, þar á meðal Afganistan, Filippseyja, Íran, Ghana, Póllands, Bosníu, Taívan, Jamaíku, Suður Afríku, Sýrlands, og Kólumbíu. 

DEILA