MÍ tók ásamt flestum öðrum framhaldsskólum landsins þátt í Mín framtíð sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík 13. – 15.mars. s.l. Verkiðn á veg og vanda af þessari árlegu framhaldsskólakynningu þar sem tilvonandi nemendur og aðrir gestir hafa tækifæri til að kynna sér námsframboð skólanna og hitta nemendur og starfsfólk.
Frá því er greint á vefsíðu Menntaskólans á Ísafirði að bás MÍ hafi vakið mikla athygli en níu starfsmenn og 16 nemendur tóku þátt og skiptu með sér vöktum. Námsframboð, félagslíf, heimavist og margt fleira var kynnt með fjölbreyttum hætti. Boðið var upp á MÍ-smákökur og MÍ-drykki, lukkuhjól, gestabók og fleira skemmtilegt. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir var meðal gesta og átti hún gott spjall við starfsfólk og nemendur MÍ.
Þá fór einnig fram Íslandsmót iðn- og verkgreina þar sem nemendur keppa í samtals 19 iðngreinum. Þeir fá þannig tækifæri til að takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni sem reyna á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Benedikt Þórhallsson húsasmíðanemi keppti fyrir hönd MÍ og var hægt að fylgjast með honum að smíða tröppu. Samnemendur Benedikts tóku þátt í undirbúningi fyrir keppnina og veittu einnig mikilvægan stuðning á meðan keppnin stóð yfir.
Nemendur og starfsfólk eru í stuttu máli mjög ánægðir með framlag skólans á Mín framtíð og er stefnt að því að taka aftur þátt að ári.