Bolungavík: ógnin aldrei til staðar

Lögreglan á Vestfjörðum hefur sent frá sér tilkynningu um aðgerðirnar í Bolungavík í dag.

Fram kemur að sá sem ógn var talin stafa af er ekki staddur á landinu. Aðgerðin var því tilefnislaus.

„Á níunda tímanum í morgun barst lögreglunni á Vestfjörðum tilkynning frá einstaklingi sem taldi sér og börnum sínum ógnað. Fjölskyldan býr í Bolungarvík.

Tilkynnandinn taldi að ákveðinn aðili, búsettur erlendis, væri kominn til Bolungavíkur og vildi vinna fjölskyldunni mein.

Fjórir lögreglumenn fóru þá þegar frá Ísafirði á vettvang og voru viðbúnir því að þurfa að grípa til vopna. Til öryggis var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til aðstoðar, en hún var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur.

Öryggi fjölskyldunnar og íbúa í Bolungarvík var tryggt meðan leitað var þess aðila sem tilkynnt var um.

Eftir mikla upplýsingaöflun lögreglunnar í dag er niðurstaðan sú að tilkynnandinn hafi ekki metið aðstæður rétt og sá aðili sem ógnin var talin stafa af ekki á landinu.

Aðgerðum er lokið.“

DEILA