Samtök ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa ritað bréf til atvinnuvegaráðherra og farið fram á að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala og að ráðherrann setji reglugerð um það.
Í bréfinu kemur fram að tilefnið er að veitt hefur verið leyfi til fimm ára til hrefnuveiða og að hrefnuveiðimenn hafi lýst því yfir að veiðarnar muni fara fram í og við Ísafjarðardjúp. Aðeins sáust tvær hrefnu í Djúpinu við rannsóknir á síðasta ári sem fram fóru frá júní til september.
Vísað er til þess að ferðaþjónusta hafi verið að byggjast upp við Ísafjarðardjúp, þar á meðal hvalaskoðun.
Þá segir í bréfinu að árið 2017 hafi bannsvæði við hvalveiðum í Faxaflóa verið stækkað að ósk hvalaskoðunarsamtaka.
Undir bréfið rita Jóhannes Þór Skúlason og Sigursteinn Másson.
Bæjarins besta innti Jóhannes eftir því hvað liggi fyrir um möguleg áhrif af hrefnuveiðum á ferðaþjónustu sem gefur tilefni til þess að samtökin fara fram á þetta bann. Ekki barst svar við því en í svarinu segir að við Ísafjarðardjúp hafi verið „að byggjast upp fjölbreytt ferðaþjónusta undanfarin ár, meðal annars í siglingum með ferðamenn og skipulagðri hvalaskoðun. Það er mat samtakanna að mikilvægt sé fyrir áframhaldandi uppbyggingu þeirrar atvinnustarfsemi að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala, þannig að hvalveiðar og hvalaskoðun fari ekki fram hlið við hlið.“