Bæjarráð Ísafjarðarbæjar áréttar þá afstöðu sína að það ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða, hvorki á gildistíma nýrrar reglugerðar né með nýjum lögum sem boðuð hafa verið.
Þetta er gert i tilefni af því að atvinnuvegaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um breytingar á strandveiðum. Bæjarráðið segir í bókun að það fái ekki séð af texta reglugerðarinnar hvernig henni er ætlað að ná fram þeim markmiðum sem lagt er upp með, að tryggja 48 daga strandveiðar, þar sem ekki er gert ráð fyrir auknum kvóta til að mæta því markmiði.
En hins vegar séu settar nýjar takmarkanir sem væntanlega er ætlað að þrengja nægjanlega að strandveiðum til að ná bæði 48 daga markmiðinu og halda veiðunum innan núverandi ramma.
kvótakerfið hefur sannað sig
þá segir í bókun bæjarráðs:
„Bæjarráð telur að þrátt fyrir ýmsa galla hafi fiskveiðistjórnunarkerfið sannað gildi sitt. Fyrir utan almenna kerfið eru að minnsta kosti tvö byggðakvótakerfi, hið almenna og sértæka. Þessi kerfi, einkum hinn svokallaði Byggðastofnunarkvóti, hafa haft veruleg jákvæð áhrif á útgerðir og vinnslur á Vestfjörðum. Sem slík hafa kerfin stuðlað að stöðugri atvinnu árið um kring og þar með fjölbreyttu lífi í sjávarbyggðum, ekki bara á höfnum og fiskvinnslum, heldur í skólum og félagsheimilum. Strandveiðikerfið, sem einungis er virkt yfir sumartímann, nær þessu ekki fram.
Ánægjulegt er að takmarkanir séu settar á eignarhald á bátum. Ekki eru þó gerðar neinar kröfur um launahlutfall. Er það nefnt hér þar sem greiningar hafa sýnt að launahlutfall er verulega lægra í strandveiðum en í öðrum veiðum, þrátt fyrir að telja mætti að mannaflsfrekar veiðar krefðust þess. Sveitarfélög hafa sínar tekjur af útsvari, og lægri laun hafa því áhrif á tekjur sveitarfélaga. Þetta verður enn skýrara ef sjómenn búa ekki árið um kring í sveitarfélaginu og hafa ekki lögheimili þar.
Samandregið er Ísafjarðarbær fylgjandi því að breyta strandveiðum í þá átt að meira af afleiddum áhrifum verði eftir í sjávarbyggðunum, en misbrestur hefur verið á því.“