Samtöl í gangi milli Innviðafélags Vestfjarða og ríkisstjórnarinnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.

Fram kom í gærkvöldi á fundi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra á Dokkunni á Ísafirði að samtöl hafi átt sér stað milli ríkisstjórnarinnar og Innviðafélags Vestfjarða um samgöngusáttmála fyrir Vestfirði. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, talsmaður Innviðafélagsins var á fundinum og staðfesti þetta og bætti því við að honum hafi verið vel tekið. Þorgerður Katrín sagði að það yrði framhald á viðræðunum án þess þó að gefa neitt upp um mögulega niðurstöðu.

Fundurinn snerist að mestu um verkefni utanríkisráðuneytisins og gerði utanríkisráðherra grein fyrir þeim, umfangi ráðuneytisins og sendiráða. Ráðuneytið er með 126 starfsmenn auk starfsfólks á 26 sendiskrifstofum víða um heim. Fram kom að borgaraþjónusta er drjúgur hluti verkefna ráðuneytisins og koma um 30 erindi á hverjum degi inn á borð ráðuneytisins eða sendiskrifstofanna.

Ráðherrann er staddur á Vestfjörðum þessa dagana og hefur fært skrifstofu sína vestur næstu daga. Verður Þorgerður Katrín í dag í Vesturbyggð, heimsækir stofnanir og fyrirtæki og mun vera á fundi Vegagerðarinnar seinni partinn um samgöngumál.

ekki breytingar á lögum um erlenda fjárfestingu

Utanríkisráðherra upplýsti aðspurð að ekki væru uppi áform af hálfu ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um erlenda fjárfestingu, þvert á móti stæði vilji ríkisstjórnarinnar til þess að efla erlenda fjárfestingu.

Á Vestfjörðum er viðsnúningur í íbúaþróun síðasta áratuginn nátengt erlendri fjárfestingu í laxeldi, klakþörungavinnslu og lækningavörum úr þorskroði.

Fundurinn var vel sóttur og fékk ráðherran fjölmargar fyrirspurnir tengdar viðfangsefni ráðuneytisins.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA