F. 14. maí 1933 – d. 14. febrúar 2025.
Guðmundur var upprunninn í hinum víðáttumikla og grösuga Valþjófsdal í Önundarfirði. Frá náttúrunnar hendi er dalurinn fögur og blómleg byggð og hefur ræktun góðbænda aukið enn við prýði hans og nytjar.
Ungur var hann nemandi síra Eiríks J. Eiríkssonar, skólastjóra á Núpi. Fullorðinn var hann einn brautryðjenda í vestfirskri vegagerð. Hann vann lengi undir stjórn Lýðs Jónssonar, en varð seinna héraðs- og rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Hann aflaði sér flugmannsréttinda og var þaulkunnugur flugvöllunum í héraðinu. Hann velti því fyrir sér, hvort flugvöllur á Sveinseyrarodda í Dýrafirði gæti komið íbúum á norðanverðum Vestfjörðum til góða, bæði í innan- og utanlandsflugi.
Guðmundur var bókamaður, vel máli farinn og áhugasamur um íslenska tungu. Ósjaldan færði hann í tal, hve mjög málfæri landa okkar væri tekið að hraka – og hann gat hlegið dátt að rollu eins og þessari, þótt undir niðri tregaði hann meðferðina á móðurmálinu:
„Heilt yfir hljóta jú lausnamiðaðir einstaklingar auðvitað líkt og að fókusera á þær gríðarlegu áskoranir, sem koma á þeirra borð á í-meilnum gagnvart innviðunum, sem eru jú auðvitað á pari við nýja vínkilinn á einni sviðsmyndinni í stóra samhenginu. En þá er bara ekki tekið mark á’ussu og ekkert hlustað á’etta, heldur er umræðan tekin á breiðum grundvelli hægri vinstri, eins og enginn sé morgundagurinn – við aðila sem á þessum level eru útsettir fyrir smit, en eru samt ekki að fatta mikilvægi sóttkvís, basically, svo það sé sagt, þú veist …“
Djúpt í hugarfylgsnum hans djarfaði fyrir þeim grun, að hann væri að langfeðgatali kominn af húgenottum, en svo nefndust franskir mótmælendur, kalvínstrúar, sem ofsóttir voru eftir að Loðvík 14. komst til valda í Frakklandi. Árið 1685 svipti konungur þá öllum réttindum og flýðu þeir þá til nálægra landa. Einn forfeðra Guðmundar hét Jens Viborg. Og nokkuð var það, að Guðmundur var ekki ólíkur sumum fransmönnum í útliti: svarthærður, dökkur á hörund og brúneygður.
Guðmundur var kvæntur manna best. Geira var einstök kona að manngæðum, glaðlynd, góðviljuð og vinföst, trúuð og kirkjurækin, vissi, að máttur bænarinnar er mikill og hún lýsti því einatt, hversu hún hefði hlotið blessun í guðsþjónustunni. Hún las oft í Biblíunni, sálmabókinni og Passíusálmunum og lét uppbyggjast af heilögu orði.
Við verðum alla ævi þakklát fyrir það, hve annt þau hjónin létu sér um okkur allt frá fyrstu dögunum vestra. Þegar leiðir allar heim til okkar voru á kafi í fönn, misjafnra veðra von og Hvilftarströndin stórvarasöm sakir flóðahættu, hringdi síminn og það var þá Guðmundur að bjóðast til þess að koma með til okkar, ef okkur vantaði úr búðinni hjá Laufeyju á Flateyri.
Þegar heilsu konu hans tók að hraka, komu í ljós nýjar hliðar á Guðmundi. Erfitt er að hugsa sér meiri ástúð og natni en hann sýndi Geiru síðustu árin. Hann sá um innkaupin, þreif, eldaði og bakaði meira að segja; snerist í kringum konu sína og hlúði að henni á alla lund.
Með miklum söknuði, þökk og bæn um blessun Guðs kveðjum við elskulegan tryggðavin. Við biðjum Guð um frið yfir legstað hans, og um blessun yfir endurfundi hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Við felum Guðmund Steinar Gunnarsson orði Guðs náðar. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.
Gunnar Björnsson
pastor emeritus.
pastor emeritus.