F. 2. desember 1898 á Flateyri. D. 24. mars 1988.
Öndvegisverk: Virkið í norðri I – III, 1947 – 1950, Skáldið á Þröm, 1956, Í Múrnum, 1964.
Mörg vitum við að hið vestfirska vatn er einstaklega ferskt, holt og gott ef þú fáir ekki bara einhvern einstakan kraft úr þessum vinsæla drukk. Jafnvel sköpunarkraft. Það má alveg heimfæra það uppá hinn vestfirska listamann Gunnar M. Magnúss er ritaði nærri eitt hundrað bækur. Það var þó eigi hans eini starfi enda er það oft fyrsta spurning til listamanna, en við hvað vinnur þú hvaðan færðu monninginn? Gunnar starfaði lengi sem kennari og svo var hann gífurlega velvirkur í félagsmálum listamanna. Það má því vel minnast þessa skapandi vestfirska listamanns með nokkrum orðum.
Skildvindutónar
Gunnar fæddist á Flateyri hvar hann bjó fyrstu 10 æviárin er fjölskyldan tók sig upp en þó eigi lengra en í næsta fjörð á Suðureyri við Súgandafjörð. Einsog velvirkur höfundi sæmir þá ritaði hann vitanlega bók um þessi æskuár sín sem vel má mæla með að fólk kikki á. Bókin nefnist Þrepin þrettán enda fjallar hún um hans fyrstu 13 æviár. Þarna má m.a. lesa um norska hvalveiðiævintýrið á Flateyri og svo er þarna kostulegur þáttur af skemmtun á Suðureyri hvar hinn merki en alltof lítið um talaði listamaður Ingimundur er auknefndur var fiðla fór á kostum. Svo vildi til að skömmu fyrir skemmtun Ingimundar hafði komið mikil græja í fjörðinn, skilvinda mikið undratæki er skildi rjómann úr mjólkinni svo úr varð svalandi undanrenna. Það lá við að þakið dytti af leikhúsinu er listamaðurinn byrjaði að leika á fiðlu sína og framkvæma sömu hljoð og komu úr undratækinu ekki nóg með það heldur mátti heyra hljóðin í fjarlægð sem nálægð líkt og mónó og stereó.
Svo fór Gunnar einsog sumir suður hvar hann brautskráðist sem kennari 1927 og bætti svo við sig kennaraþekkingu við Kaupmannahafnar kennaraskóla. Lengst af kenndi hann við Austurbæjarskóla eða frá 1930 til 1947. Í áratug sat hann í stjórn Kennarasambands Íslands auk þess að sitja í stjórnum fjölmargra listafélaga má þar nefna Rithöfundafélags Íslands og svo var hann formaður Félags leikskálda í sex ár. Eftir því sem á leið jukust hans skrif eigi voru það bara bækur heldur ritstýrði hann tímaritunum Útvarpstíðindum, Íþróttablaðinu, Menntamálum og ásamt Aðalsteini Sigmundssyni stýrði hann barnaritinu Sunnu. Hann var meira að segja bóksali í ein sex ár um miðja liðnu öld. Þá má ekki gleyma hans ötulu og sönnu baráttu fyrir friði hér á landi. 1953 stofnaði hann samtökin Andspyrnuhreyfing gegn her í landi og var jafnframt formaður þess. Það starfaði reyndar ekki lengi er varð fyrirmynd af álíka þörfum félögum er eftir hafa komið. Er Ísland var hernumið hófst hann fljótlega handa við að rita um óefnið og útkoman var bókverkið Virkið í norðri er kom út skömmu eftir seinni heimstyrjaldarlok eða árið 1947. Heljarins mikið verk í þremur bindum er telur nærri eitt þúsund blaðsíður og er án efa eitt af hans öndvegisverkum. Árið 1964 ritaði hann síðan hið gagnmerka verk Árin sem aldrei gleymast. Ísland og heimstyrjöldin síðari.
Eiginkona Gunnars var Kristín Eiríksdóttir en hún andaðist 11. nóvember 1970.
Allt frá barnabókum til blikksagna
Ef maður hefur ritað nærri hundrað bækur hefur án efa margt verið um þau verk rituð og þá í átt til gaggarýni. Vissulega er það allt breytilegt sumir fíla Sjálfstætt fólk meðan atriðir ná ekki einu sinni að ljúka lestri verksins. Göggum þó eigi meir um þetta en leyfum okkur þó að grípa til orðs eins gaggarans er sagði að hann væri eigi eingrasa höfundur. Þar er lýsandi yfir fjölbreytileika skáldasveigs Gunnars. Fyrsta bók hans var Fiðrildi, smásagnasafn fyrir börn, er kom út 1928. Eftir það átti hann eftir að senda frá sér margar barnabækur þar sem ósjaldan komu fyrir ævintýri barnananna í Víðigerði. Áður gátum við sögubóka hans um hernámið all margar fleiri sögubækur komu úr hans ranni nægir þar að nefna Byrðingar er fjallaði um skipasmíði einnig ritaði hann sögu Blikksmiða hér á landi.
Þá er að geta hans merku ævisagnaverka hvar fremst í flokki er án efa Skáldið á Þröm er fjallar um hina harmþrungnu ævi skáldsins Magnúsar Hj. Magnússonar sem er fyrirmyndin Ljósvíkingi Halldórs Laxness í Heimsljósi. Víst var Magnús Gunnari hugleikinn því árið 1983 stóð hann fyrir því að reistur var sérstakur minnisvarði á Suðureyri á þeim stað er Magnús bjó og nefndi Þröm. Sagði að það væri þó eigi vegna þess að allt væri á heljarþröm, en næstum því. Það var hinn listhagi Súgfirðingur Guðmundur A. Guðnason er minnisvarðann gjörði.
Að síðustu er rétt að minnast dulítið á leikverk úr ranni Gunnars. Þeirra merkast er líklega Í múrnum sögulegt verk er gjörist í þá fangelsi þjóðarinnar sem er nú aðsetur ríkisstjórnar Íslands og nefnt Stjórnarráðshúsið. Leikurinn var fluttur í Ríkisútvarpinu 1964 þegar enn voru þar gerð útvarpsleikrit og sama ár kom leikritið út á bók. Fleiri leikverk ritaði hann til flutnings í landsútvarpinu má þar nefna Herrans hjörð sem er framhaldsleikverk um ævi skáldsins Hjálmars er kenndur var við Bólu.
Elfar Logi Hannesson
Heimildir:
Af Wikipediu
Gunnar M. Magnúss. Þrepin þrettán, 1978.
Morgunblaðið 2. 9. 1983.
Réttur 1 hefti 1988.
Skáldatal: Íslenskir barna- og unglingabókahöfundar. Elísabet Þórðardóttir, Guðríður Gísladóttir, Ingibjörg Sæmundsdóttir. Lindin, 1992.
