Breytingar á reglugerð um strandveiðar í samráðsgátt

Frá Bolungarvík

Í drögum að reglugerð um strandveiðar sem birtar hafa verið í samráðsgátt eru lagðar til þrjár breytingar.

Í fyrsta lagi er lagt tl að að skylt verði að sækja um leyfi til strandveiða fyrir tiltekið tímamark, en framkvæmdin hefur verið að heimilt hefur verið að sækja um eftir að strandveiðitímabil hefst. Lagt er til að sækja þurfi um leyfi til strandveiða fyrir 15. apríl og ekki verið heimilt að sækja um strandveiðileyfi eftir það tímamark. Þó verði umsækjanda heimilt að tilgreina í umsókn upphafsdag strandveiða, ef t.d. umsækjandi er að ljúka veiðum í öðrum kerfum. 

Í öðru lagi er skilyrði um eignarhald þar sem lagt er til að eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á strandveiðitímabilinu skuli eiga að minnsta kosti meirihluta í lögaðilanum. Þannig getur strandveiðiskip í eigu lögaðila ekki haldið úr höfn nema sá sem á meira en 50% í lögaðila sé lögformlega skráður um borð í skip í gegnum lögskráningarkerfi sjómanna.

Í þriðja lagi er lagt til að skipstjóra strandveiðiskips verði skv. reglugerð skylt að senda aflaupplýsingar stafrænt til Fiskistofu áður en skipi er lagt að bryggju í löndunarhöfn að lokinni veiðiferð.

Umsagnafrestur um þessar breytingar er til 20. mars. 

DEILA