Háskólasetur Vestfjarða – Sterk stoð í samfélaginu í 20 ár

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Háskólasetur Vestfjarða fagnar 20 ára starfsafmæli þann 14. mars. Frá stofnun þess árið 2005 hefur Háskólasetrið skipað sér sess sem öflugt mennta- og rannsóknasetur á landsbyggðinni og leitt til mikilvægra efnahagslegra, samfélagslegra áhrifa á Vestfjörðum. Háskólaseturið hefur sannað sig sem mikilvægur hlekkur í nýsköpun og samfélagslegri þróun á Vestfjörðum.  

Mikilvægi og hlutverk Háskólaseturs

Þegar Háskólasetur Vestfjarða var stofnað var markmiðið skýrt: Að efla háskólamenntun á Vestfjörðum og stuðla að efnahagslegri og samfélagslegri þróun svæðisins. Þetta var stórt skref á þeim tíma, enda höfðu landsbyggðirnar löngum glímt við fólksfækkun og takmarkað aðgengi að háskólanámi. Með því að koma á fót Háskólasetri Vestfjarða var lagður grunnur að menntunartækifærum á svæðinu og aukinni háskólasókn.

Háskólasetrið hefur byggt upp námsleiðir sem höfða til alþjóðlegra nemenda og háskólasamfélagsins almennt. Námsbrautir í haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði hafa laðað til sín nemendur víðs vegar að úr heiminum og gert Ísafjörð að mikilvægum punkti í fræðilegrar umfjöllunar um vistkerfi sjávar, nýtingu náttúruauðlinda og samfélagsþróun á breiðum grunni. Þannig hefur setrið ekki aðeins opnað dyr fyrir Vestfirðinga til háskólanáms heldur einnig gert Ísafjörð og Vestfirði að kjörsvæði fyrir rannsóknir og fræðastarf.

Lyftistöng fyrir atvinnulífið

Efnahagsleg áhrif Háskólaseturs Vestfjarða á svæðinu eru fjölþætt. Háksólasetrið hefur skapað störf fyrir sérfræðinga og kennara og dregið að sér námsmenn og fræðafólk sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Á sama tíma hefur það skapað ný tækifæri fyrir ferðaþjónustu, húsnæðismarkað og nýsköpun.

Nemendur sem koma til Vestfjarða til náms hafa margir hverjir ákveðið að setjast að á svæðinu eða komið aftur eftir nám. En á hverju ári eru um 80 nemendur búsettir á Vestfjörðum á vegum Háskólaseturs. Þessi þróun hefur styrkt byggð og veitt svæðinu nauðsynlega innspýtingu í formi ungs, menntaðs fólks.

Starfsemi Háaskólasetur Vestfjarða hefur líka leitt af sér mikilvæg störf og þekkingaruppbyggingu. Fjölmörg dæmi eru um ný fyrirtæki sem nemendur hafa byggt upp á svæðinu sem hafa auðgað vestfirskt samfélag. Nemendur og kennarar Háskólasetur hafa líka verið mikilvægir starfsmenn í atvinnulífinu t.a,m. í vaxandi ferðaþjónustu og hjá nýsköpunarfyrirtækjum á borð við Kerecis svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir á vegum Háskólaseturs hafa leitt til nýrra tækifæra og aukið stuðning við nýsköpun á sviði sjávarútvegs, ferðaþjónustu og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.

Það voru stór tímamót í sögu Háskólaseturs Vestfjarða þegar stúdentagarðarnir í Fjarðarstrætinu voru opnaðar 1. desember 2024 sl. Húsin tvö eru stórglæsileg (nema kannski umdeildu lofttúðurnar) og með 40 íbúðum. Þar með var leyst úr brýnni húsnæðisþörf háskólanema og samhliða losaði líka um á almennum leigumarkaði.

Háskólasetur Vestfjarða – það lengi lifi

Á tuttugu árum hefur Háskólasetrið sannað mikilvægi sitt fyrir Vestfirði og íslenskt fræðasamfélag. Það hefur verið burðarás í menntun, samfélagsuppbyggingu og efnahagsþróun á svæðinu og veitt Vestfirðingum aðgang að menntun sem áður var einungis aðgengileg á höfuðborgarsvæðinu. Áframhaldandi starfsemi og þróun Háskólaseturs er ekki aðeins mikilvæg fyrir háskólamenntun heldur einnig fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum. Með skýrri framtíðarsýn og öflugu samstarfi mun Háskólasetrið áfram vera hornsteinn fræðastarfs, nýsköpunar og samfélagslegrar þróunar í fjórðungnum.

Við Vestfirðingar fögnum þessum merku tímamótum og erum þakklát fyrir það gæfuskref sem tekið var fyrir tuttugu árum með stofnun Háskólasetur Vestfjarða. Horfum bjartsýn til framtíðar og til hamingju með daginn!

Arna Lára Jónsdóttir

Oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

DEILA