Tillögur Innviðaráðuneytisins að nýjum úthlutunarreglum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu lækka framlögin til Súðavíkurhrepps um 67-68%. Þetta kemur fram í umsögn Súðavíkurhrepps um frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er tillögunum líkt við hamfarir fyrir sveitarfélagið.
Tillögurnar eru sagðar blanda pólitískum markmiðum um fækkun sveitarfélaga inn í úthlutunina með því að lækka framlögin til fámennra sveitarfélaga. Spurt er hvort það sé hlutverk Jöfnunarsjóðs að knýja sveitarfélögin í þrot og ná þannig fram fækkun þeirra.
Í hinum nýju reglum er aukið við framlög til svonefndra fjölkjarna sveitarfélaga eins og Ísafjarðarbæjar og tekur Súðavíkurhreppur undir að það sé eðlilegt og því verði þá mætt með línulegri skerðingu á öll önnur sveitarfélög. Hins vegar sé skerðingin sem Súðavík sé ætlað að bera ósanngjörn, sveitarfélagið sé landmikið og fámennt.