Þrettán verkefni fá 140 milljónir – 30 milljónir til Vestfjarða

Flateyri

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum kr. til þrettán fjölbreyttra  verkefna til að efla byggðir landsins. Framlag til styrkjanna kemur af byggðaáætlun (aðgerð C.1 – Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða). Alls bárust nítján umsóknir fyrir um 437 m.kr. en heildarkostnaður verkefnanna var rúmlega 800 m.kr.

Markmiðið með aðgerðinni er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Valnefndina skipa Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður, Elín Gróa Karlsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. 

Þrjú verkefni á Vestfjörðum fengu styrk:

Byggðabragur – sjálfsmynd íbúa og ímynd nýs sveitarfélags

  • Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
  • Styrkupphæð: 9,4 m.kr.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinuðust árið 2024. Svæðið hefur átt undir högg að sækja í áratugi og umfjöllun oft reynst íbúum erfið. Verkefnið miðar að því að styrkja sjálfsmynd svæðisins og vinna með sveitarfélaginu og íbúum að því að skapa framtíðarsýn fyrir nýtt sveitarfélag og byggja á henni ímyndarsókn. 

Tenging fjárfesta við innviði og auðlindir á Vestfjörðum

  • Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
  • Styrkupphæð: 10,6 m.kr.

Verkefnið gengur út á að auka fjölbreytni í atvinnulífi á Vestfjörðum með því að kynna vannýttar auðlindir og staðsetningar fyrir fjárfestum sem hafa áhuga og getu til nýfjárfestinga í matvælaframleiðslugreinum eins og landeldi, smáþörungaframleiðslu og líftækni, ásamt öðrum greinum sem styðja við verðmætasköpun á svæðinu. 

Samræmd móttaka og inngilding íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum

  • Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
  • Styrkupphæð: 10 m.kr.

Verkefnið snýr að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélög á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélög. Annar hlutinn snýr að því að vinna með sveitarfélögum að því að finna leiðir innan stjórnsýslunnar til þess að raddir íbúa af erlendum uppruna nái að heyrast. 

DEILA