Hrun í bókun skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar

Skemmtiferðaskipið Oceanic við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bókunum skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 hefur fækkað um helming frá því sem var á síðasta ári og eru í dag aðeins 84 skipakomur bókaðar. Til samanburðar voru um 150 skip bókuð í fyrra á sama tíma fyrir 2026.

Hilmar K. Lyngmo, hafnastjóri segir í minnisblaði sem lagt var fram í hafnastjórn í síðustu viku að staðan fyrir árið 2027 hljóti að teljast áhyggjuefni.

Í sumar eru 197 skip bókuð hjá höfnum Ísafjarðar og á næsta ári 2026 eru bókaðar 176 komur.

Í minnisblaðinu kemur fram að varðandi árið 2027 þá munu skipafélögin bíða með frekari bókanir þar til í ljós kemur hvort framkvæmd innviðagjaldsins verði breytt. Það sem félögin eru fyrst og fremst að kalla eftir er fyrirsjáanleiki varðandi starfsumhverfið. Ef hann vantar er erfitt að halda uppi ferðum til Íslands. Hilmar segir að skipaboðin frá skipafélögunum séu skýr, ef ekki verði búið að breyta álagningu innviðagjaldsins fyrir næstu mánaðamót muni skipafélögin finna sér aðrar hafnir en hér á landi.

Hins vegar munu skipafélögin standa við þær ferðir sem búið var að selja hingað árin 2025 og 2026.

Óánægjan stafar af því að innviðagjaldið 2.500 kr á hvern farþega fyrir hvern sólarhring var sett á með lögum fyrir áramótin og verða skipafélögin að greiða gjaldið þar sem farþegarnir voru búnir að kaupa ferðirnar og greiða þær. Falla þannig háar fjárhæðir á skipafélögin.

Málið var rætt á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í morgun og samþykkti bæjarráðið eftirrfarandi bókun þar sem farið er fram á endurskoðun málsins:

„Bæjarráð telur að skattlagning á gesti skemmtiferðarskipa hafi komið of hratt til framkvæmda og að upphæðin sé í engu samræmi við aðra skattlagningu á gesti sem koma til landsins. Með þessu er verið að fórna talsvert meiri hagsunum fyrir minni. Bæjarráð beinir því til yfirvalda að endurskoða upphæðir og auka fyrirsjáanleika.“

DEILA