Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: 191 m.kr. aukning til Ísafjarðarbæjar – en mikil skerðing hjá öðrum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ætlað er að  „stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.“

Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar frá 10. mars 2023 til 30. mars 2023 og var lagt fyrir 154. löggjafarþing Alþingis 2023-2024 en náði ekki fram að ganga. Ráðherra fól ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í janúar sl. að ganga frá endanlegum tillögum um breytingar á starfsemi og regluverki sjóðsins og er nú áformað er að leggja frumvarpið aftur fram með nokkrum breytingum.

Lögð er nú aukin áhersla á að líkanið styðji við sveitarfélög sem hafa stór þjónustusóknarsvæði og fjölbreytt byggðamynstur og hafa af þeim sökum miklar og flóknar útgjaldaþarfir. Þá er stefnt að því að dregið sé úr neikvæðum hvötum til sameininga. Enn fremur eru lagðar til aðrar breytingar á líkaninu sem hafa m.a. það markmið að koma í veg fyrir að líkanið hamli sameiningu mjög stórra sveitarfélaga og að líkanið styðji betur við sveitarfélög með stór þjónustusvæði og fjölbreytt byggðamynstur.

2,4 milljarðar króna til Vestfjarða

Samkvæmt töflu um breytingar á úthlutun sjóðsins til einstakra sveitarfélaga myndu renna um 2.360 m.kr. til sveitarfélaganna á Vestfjörðum eftir breytingar sem er nánast sama fjárhæð og er samkvæmt gildandi úthlutunarreglum. Hins vegar verða verulegar breytingar á úthlutun einstakra sveitarfélaga. Framlög til Ísafjarðarbæjar munu aukast um 191 m.kr. og um 31 m.kr. til Bolungavíkur. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur, sem nú hafa sameinast, munu fá samtals óbreytt framlag. Önnur sveitarfélög á Vestfjörðum munu tapa á breytingunum.

Reykhólahreppur fær 70 m.kr. minna en nú, Súðavík 63 m.kr. minna og Strandabyggð 49 m.kr. lægri framlög eins og sést í töflunni að neðan.

höfuðstaðaálag

Meðal nýmæla í frumvarpsdrögunum er að greitt verði framlag vegna sérstakra áskorana vegna höfuðstaðarálags, sem úthlutað skal til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, og skulu nema allt að 2,5% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 2. gr.,. Framlagið skiptist þannig að einu prósentustigi þess skal skipta
jafnt á milli sveitarfélaganna tveggja og 1,5 prósentustigi skal skipta eftir fjölda íbúa þeirra 1. janúar ár hvert.

Fær Reykjavíkurborg 400 m.kr. í aukin framlög vegna þessa og Akureyri 157 m.kr. Hingað til hefur Reykjavíkurborg fengið óveruleg framlög úr Jöfnunarsjóðnum enda ekki talin þörf á því.

DEILA