Ársfundur Landsnets var haldinn í vikunni, en fyrirtækið er 20 ára um þessar mundir. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets flutti sitt síðasta erindi sem forstjóri á fundinum en hann lætur af störfum í haust. Ragna Árnadóttir mun taka við stöðu forstjóra þann 1. ágúst næstkomandi.
Guðmundur fór yfir árangurinn sem náðst hefur síðustu 20 árin.
„Það eru þrír drifkraftar sem knýja á breytingar í orkumálum þjóðarinnar, orkuöryggi, orkusjálfstæði og orkuskipti. Þessir drifkraftar tengjast nánum böndum, því ef við náum árangri í orkuskiptum, meðal annars með því að byggja upp flutningskerfið, þá náum við árangri í orkuöryggi og tryggjum betur orkusjálfstæði Íslands.”
Orkuskiptin munu spara um 160 milljarða króna á ári í innflutningi mengandi orkugjafa og til að tryggja að árangri í þessum stóru málum þarf Landsnet að fjárfesta fyrir 200 milljarða króna á næstu 10 árum, sem er tvöföldun á efnahagsreikningi. Það eru blikur á lofti að okkur takist þetta sem þjóð í núverandi umhverfi leyfisveitingaferla.
Guðmundur fór einnig yfir að innviðaskuld þjóðarinnar í flutningsmannvirkjum væri orðin 86 milljarðar og færi einungis hækkandi ef frekari tafir yrðu á lykilframkvæmdum. Staðan er orðin þannig að ekki væri ávinningur af því að virkja frekar á Norður- og Austurlandi, þar sem veikleikar í byggðalínunni muni einungis leiða til meiri flutningstakmarkana.
Flutningstakmarkanirnar í dag kosta þjóðina 11-15 milljarða á ári í formi vannýttrar orku, aukins kostnaðar vegna flutningstapa, skerðinga og loftlagsskuldbindinga. Í þessa upphæð vantar töpuð tækifæri, sem eru jafnvel hærri upphæð sagði Guðmundur.
Guðmundur fór einnig yfir að núverandi viðskiptaumhverfi orkumála er barn síns tíma og ekki tækt til að takast á við þær breytingar sem eru hafnar og eru fram undan í orkukerfinu. Uppfæra þarf viðskiptakerfið, þannig að það sé gagnsærra og tryggi orkuöryggi þjóðarinnar og heimilanna betur ásamt því að tryggja hagkvæmasta orkuverð á hverjum tíma.
“Núverandi orkumarkaður getur ekki tekist á við breytingarnar sem eru byrjaðar og eru fram undan í orkumálum. Lítil hvatning er til nýsköpunar og orkunýtni í núverandi markaðsumhverfi. Það þarf að taka upp kerfi sem nýtir orkuna sem við framleiðum og flytjum, því það er ekki einungis hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga, heldur er það einnig ein besta umhverfisaðgerð sem við getum ráðist í.”