Síðasta Rjómaballið ?

Veislustjórar Rjómaballsins hafa oft verið skrautlegir

Laugardaginn 26. ágúst halda bændur á norðanverðum Vestfjörðum hið árlega Rjómaball en það ku vera uppskeruhátíð og töðugjöld bænda og búaliðs. Að sögn Helgu Guðnýjar Kristjánsdóttir bónda í Botni er dagskráin með hefðbundnu sniði, hlaðborð að hætti hússins, veislustjóri sem sér um skemmtiatriði og happadrætti með veglegum vinningum. Það er Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar sem ætlar að sjá um fjörið á dansgólfinu.

Upphaf Rjómaballsins má rekja til sumarsins 1989 þegar Mjólkursamlag Ísfirðinga hélt upp á 25 ára afmæli sitt og bauð öllum bændum. Þetta þótti takast svo vel að ballið hefur verið árvisst síðan. Þegar mjólkurbændum á svæðinu fækkaði tók Sláturfélagið Barðinn við umsjón og umsýslu en nú er það Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum sem ber kyndilinn.

En nú eru breytingar framundan, Núpsbræður hyggjast bregða búi á Núpi og hjónin í Botni hyggjast láta af störfum sem Rjómaballsstjórar en þau hafa staðið þar í stafni í 10 ár.

Pantanir á miðum eru hjá Helgu í síma 894 4512 eða bjornb@snerpa.is og er öllum frjálst að mæta og skemmta sér með kátum bændum.

bryndis@bb.is

 

DEILA