Námsbækur hækka í verði

Penninn-Eymundsson, Mál og Menning og A4 hafa hækkað verð á milli ára á flestum nýjum námsbókum sem fáanlegar voru í könnunum verðlagseftirlits ASÍ í ár og í fyrra. Bókabúðin Iðnú lækkar hins vegar verð á öllum titlum sem skoðaðir voru frá fyrra ári. Tekið skal fram að í fyrra voru Penninn-Eymundsson og A4 með 25% afslátt af nýjum námsbókum, og í nýju könnuninni var Iðnú með 15% afslátt af þeim.

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að  Penninn-Eymundsson hækkar námsbækur fyrir framhaldsskóla í flestum tilfellum um og yfir 65% milli ára og hjá A4 hækkar verðið í flestum tilfellum um 30-50%. Mest var verðhækkunin á „Almenn jarðfræði“ hjá A4 eða úr 4.199 kr. í fyrra í 8.289 kr. sem gerir hækkun um 4.090 kr. eða 97%. Næst mesta hækkunin var á „Bókfærsla 1“ hjá Pennanum-Eymundsson en sú bók hækkaði úr 2.909 kr. í 5.599 kr. eða um 2.690 kr. eða 92%.

Verðið lækkaði hins vegar hjá Bókabúðinni Iðnú um 15–25% á milli ára. Mesta verðlækkunin í samanburðinum var á „Lífeðlisfræði“ hjá Forlaginu Fiskislóð um 32%, sú bók lækkaði úr 8.590 kr. í 5.884 kr.

Í báðum könnunum var kannað verð í eftirtöldum verslunum: Pennanum-Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Mál og Menningu Laugavegi og á Heimkaup.is.

ASÍ tekur fram að hér sé aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

smari@bb.is

DEILA