Efinn spyr og kallar eftir svörum en það er oft fátt um svör í bergmálshelli samtímans. Efasemdafólk er oft sakað um falsfréttaflutning og upplýsingaóreiðu þegar það kallar eftir heiðarlegu samtali um það sem efst er á baugi á hverjum tíma. Það er vont fyrir lýðræðið þegar samtalinu er hafnað og það er vont fyrir lýðræðið þegar fjölmiðlar bregðast vöktunarskyldum sínum – það er jú hlutverk þeirra að rýna samtímann með opnum og gagnrýnum huga – með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Það er enn mat einhverra að fjölmiðlar hafi staðið sig vel í covidfaraldrinum með þríeykið í beinni – sem hélt upp linnulausum hræðsluáróðri mánuðum saman þar sem fullyrðingarnar fóru fljótlega að rekast hvor á aðra svo úr varð mikið upplýslingaöngþveiti. það var einmitt þess vegna sem ég fór að efast. Í mínum augum var þetta ekkert annað en ákafur heilaþvottur með þátttöku fjölmiðla – sem létu að mestu fullyrðingarnar sem í ósamræmi hrópuðu hverjar á aðra framhjá sér fara. Þríeykið var ekki að upplýsa – það var að heilaþvo – það er munur á upplýsingagjöf og heilaþvotti – heilaþvottur er það þegar gagnrýni hefur verið úthýst.
Það var mikill ákafi í öllu er viðkom covid. Það kemur upp flensa á vinsælum ferðamannastað sem eitthvað hafði þó verið í umræðunni. Stuttu síðar er búið að lýsa yfir að um dauðafaraldur sé að ræða og áður en við vitum af er búið að loka heimsbyggðina inni og farið var að tala um bóluefni eins og kökuuppskrift sem hægt væri að hrista fram úr erminni bara sí svona. Og þá gaus upp mikil peningalykt af þrárlátustu flensu allra tíma. Farið var að skylda þá sem vildu hitta ættingja sína eða bara að komast út úr húsi í sýnatökur sem framkvæmdar voru með fokdýrum pinnum sem virtust þó ekki merkilegri heldur en eyrnapinnar og umdeildri grímuskyldu komið á og handspritt var alls staðar þar sem fleiri en fjórir komu saman.
Svo kom bóluefni sem átti að leysa mannskapinn undan öllum kvöðum – ekki bara frá einum framleiðanda heldur mörgum rétt eins og þeir hafi séð ósköpin fyrir í kristalkúlu ásamt uppskrift af töfralausninni.
Innilokuð heimsbyggðin sem þráði eðlilegt líf knús og kossaflens andaði léttar – skipulagðar voru hópbólusetningar og farið var að líta á þá sem afþökkuðu sem sakamenn sem væru að stofna lífi annarra í hættu og kallað var eftir skyldubólusetningu þó um klárt mannréttindabrot væri að ræða. Fljótlega kom svo í ljós að ein bólusetning dugði ekki – þrjár þurfti til jafnvel fjórar – sem sé raðbólusetningar og sem hvatningu til að þiggja þær og til að auka á örvæntinguna voru daglega fluttar fréttir af fjölda covid-andláta á heimsvísu með myndefni af heilbrigðisstarfsfólki við störf sem litu út eins og geimverur í geislavirku umhverfi – mjög svo ýkt og yfirþyrmandi. Þegar þarna var komið var ég alveg hætt að trúa nokkrum sköpuðum hlut er viðkom covid og lét trúgirni fjöldans fara í taugarnar á mér. Í mínum huga snerist þetta um peninga – mikla peninga sem sóttir voru í sjóði almennings – sjóði sem áttu að fara í að treysta innviði samfélaga til framtíðar. Við eigum sjálfsagt flest erfitt með að gera okkur grein fyrir þeim stjarnfræðilegu upphæðum sem streymdu úr almannasjóðum í vasa lyfjaframleiðenda á tímum covid.
Það skal tekið fram að ég hef ekkert á móti bólusetningum – ég set hins vegar stórt spurningarmerki við covidglundrið sem margir hafa hloti bágt af sem og flensusprautur þar sem ég tel að þær geti veikt ónæmiskerfið rétt eins og ofnotkun á pensilíni.
Ég hef heldur ekkert á móti vísindum – vísindin eru stórkostleg – þau hafa fært mannkyninu ómæld lífsgæði í gegnum tíðina með uppgötvunum sínum og rannsóknum – en vísdómurinn er vandmeðfarinn eins og allar góðar gjafir skaparans – í röngum höndum getur hann orðið að skaðræði.
( Í bréfi til „Alþjóðaþings menntamanna“ árið 1951) skrifar Albert Einstein eftirfarandi.
Vér vísindamenn höfum brugðist köllun vorri, vér höfum brotist yfir þau landamæri, sem Guð hefur sett oss, og gjört sjálfa oss að afskræmum, já, myrkraöndum. Vér erum komnir að leiðarlokum og höfum glatað öllum frekari rétti til starfs. Með öðrum orðum: Vér höfum ekki farið eins og oss bar með þau pund, sem oss var trúað fyrir. Með síðustu uppfinningum og könnunum vorum eyðileggjum vér það, sem náð hefur verið hingað til, og færum mannkynið aftur á bak inn í myrkrið og dauðann.
Þarna er Einstein að vitna til kjarnorkusprengjunnar og það er einmitt sú uppfinning sem heimsbyggðinni stafar mesta ógnin af um þessar mundir – eða þeim sem hafa drottnunarvaldið.
Ég kaupi ekki rússagrýluna í stríðráróðrinum sem á okkur hefur dunið síðustu misseri – hún er orðin ósköp lúin og ótrúverðug. Sagt er einn daginn að rússar séu komnir að fótum fram og þurfi að sækja sér mannafl til vinaþjóða í Asíu – hinn daginn að þeir muni leggja undir sig Evrópu verði þeir ekki stoppaðir strax. En hvernig á þjóð sem ekki hefur burði til að ná undir sig skikum í einu landi að hafa bolmagn til að leggja undir sig heila heimsálfu ?
Úkraínustríðið er stríð milli stórvelda – Rússlands og Bandaríkjana – bæði á höttunum eftir auðlindum. Rússland beitir fyrir sig eigin herafla en Bandaríkin Natóríkjunum og Bandaríkin láta þau að stórum hluta fjármagna úr almannasjóðum vopnakaup Úkraínu til handa – sem að mestu fara fram í gegnum Bandaríkin. Bandaríkin eru að hagnast á þessu stríði langt frá vígaslóð á meðan hin Natóríkin eru að tapa á því – Evrópuríkin eru nefnilega að éta sig upp með fjáraustri í þetta tilgangslausa stríð. Það er auðveldara að kúga þjóðir sem eru komnar niður á fjórar heldur en uppréttar svo þar er gott fyrir stórveldi sem undirbýr landtöku á norðurslóðum – stórveldi sem hefur fengið til þess aðstöðu á Íslandi að almenningi forspurðum. Bandaríkin eru ekki hér til að vaka yfir og vernda litla Ísland – þau eru hér af því að það hentar þeim.
Þjóðarleiðtogar Natóríkjanna hafa linnulaust talað um stríð og styrki til vopnakaupa – ekki um friðarviðræður – það er ekki fyrr en Trump fer að tala á þeim nótum að sum þeirra leggja til vopnahlé. Við vitum svo sem ekki hver meining Trumps er í þessu sambandi – hann segir oft eitt og annað en breytir svo þvert á það sem áður var sagt – kannski er hann bara að reyna að hvítþvo sig svona fyrirfram – ef allt fer á versta veg þá getur hann sagt að sökin sé ekki hans. Ef svo er þá er hann varasamari nú en nokkru sinni áður – hafa ber í huga að Bandaríkin hafa kynnt undir fleiri stríðsátökum í heiminum en flest önnur ríki.
En í samningaviðræðum – friðarviðræðum verða menn að mætast á miðri leið og báðir aðilar að gefa eftir.
Að mála Putin upp sem þann versta í réttlætingarherferðinni fyrir Úkraínustríðinu lýsir algjöru rökþroti í ljósi þess að Bandaríkin eru blóðug upp fyrir haus sem helsta stuðningsþjóð Ísrael í helförinni á Gasa ásamt hinum Natóþjóðunum. Annar eins hryllingur hefur ekki sést síðan í seinni heimsstyrjöld – sannarlega ósmekklegt að loka augunum fyrir því – ekkert annað en veruleikaflótti sem sagnfræði framtíðar mun ekki afsaka.
Volodymyr Zelensky sem ekki nýtur stuðnings heima fyrir virðist nú vera orðin óttaslegin – búin að átta sig á að stríðið sem hann hefur verið í forsvari fyrir er ekki neinn samkvæmisleikur – hann vill heldur ekki láta kenna sér um ef allt fer á versta veg – það vilja leiðtogar Natóríkja ekki heldur – þó þeir hafi grímulaust leikið sér að eldinum mánuðum saman.
En hverjum verður um að kenna ef þriðja heimsstyrjöldin verður að veruleika ?
Einn valdamesti maður heims Donald Trump er með auðkýfing sér við hlið sem sinn nánasta ráðgjafa og fer ekki leynt með – það hlýtur að vekja upp spurningu um hvort hann sé einn þjóðarleiðtoga um slíkt.
Sannarlega hafa margar misráðnar ákvarðanir verið teknar meðal þjóða sem augljóslega hafa verið að þjóna einhverju allt öðru en almannahagsmunum – það þekkjum við hér á fróni.
Það er því full ástæða til að velta fyrir sér hvort þjóðkjörnir fulltrúar lýðræðisríkja séu aðeins andlit auðvaldsins út á við – strengjabrúður þeirra sem vilja hafa alla þræði í hendi sér sama hvað það kann að kosta í þjáningum og mannslífum.
Ástandið í heiminum í dag er svo slæmt að bröltið í Putin eitt og sér getur ekki verið orsök þess alls – hann er hins vegar tilvalin tylliástæða fyrir þá sem vilja hanga á þessu stríði án ábyrgðar.
Málið er að almenningur um veröld víða hefur flotið sofandi að feigðarósi og látið „gulrætur“ glepja sig – hann hefur aðgerðarlaus horft upp á lýðræðið breytast í alræði auðvaldsins – sem deilir og drottnar nær og fær – ósjaldan með aðferðum sem ekki rúmast innan lagaramma.
Hvert það hæti sem borið er í vörður auðvaldsins sem varðar leið þess að alræðinu er frá öðrum tekið og verður þá um leið sem sprek á ófriðarbál – því auðsöfnun á fárra manna hendur á kostnað almennra lífsgæða getur aldrei endað öðruvísi en með ósköpum eins og mörg dæmin sanna.
Það er orðið vandræðalegt að hlusta á íslenska ráðamenn reyna að verja þetta stríð til að réttlæta þá milljarða sem fara í þessa hít og hvernig þeir reyna að sigla milli skers og báru í von um að geta verið vinir allra og komist þannig hjá óþægindum.
En vitið það eru rússar sem reynst hafa okkur vinir í raun – þeir hafa oftar en einu sinni rétt fram hjálparhönd þegar illa hefur horft hjá okkur – en íslenska kapitalið á sjálfsagt erfitt með að viðurkenna bjargirnar frá rússneska birninum.
Annars hef ég lengi haldið því fram að það sé ekki stór munur á vestrænu kapitali og rússneskum kommúisma.
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Sósíalisti og lífsreyndur eldri borgari.