Bæjarráð Bolungavíkur lýsir yfir miklum vonbrigðum með stöðu innanlandsflugs til og frá norðanverðum Vestfjörðum. Í bókun bæjarráðsins sem samþykkt var á fundi þess í gær segir :
„Flugsamgöngur til og frá svæðinu eru einu almenningssamgöngur við svæðið og treystir samfélagið á þessa þjónustu í daglegu lífi.
hagkvæmisrök á kostnað landsbyggðarinnar
Ísland hefur síðustu áratugi verið byggt á þann veg að landsbyggðin treystir á að geta sótt þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Heilbrigðisþjónusta, flutningar, verslun, menning og ferðalög eru dæmi um þjónustu og innviði sem fara að stórum hluta í gegnum höfuðborgarsvæðið. Fyrir þessu hafa verið færð margvísleg hagkvæmnisrök sem oft á tíðum eru þó, þegar allt kemur til alls, á kostnað íbúa landsbyggðarinnar.
treyst á gott aðgengi að höfuðborgarsvæðinu
Landsbyggðin og Bolvíkingar þar með taldir, treysta á gott, hagkvæmt og stöðugt aðgengi að höfuðborgarsvæðinu. Það er skylda höfuðborgarinnar og stjórnvalda að tryggja þetta aðgengi með öllum þeim ráðum sem í boði eru.
Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á stjórnvöld að rækja skyldur sýnar og tryggja íbúum á norðanverðum Vestfjörðum aðgengi að höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. með flugsamgöngum. Eða að öðrum kosti snúa þróuninni við að færa þjónustuna aftur til landsbyggðarinnar.“