Vegagerðin hefur framlengt samning við flugfélagið Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um tvær vikur, eða til 15. mars 2025.
Flogið verður fjórum sinnum í viku líkt og verið hefur undanfarna mánuði.
Vegagerðin samdi við Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur í október á síðasta ári. Í samningnum, sem gildir í 3 ár, felst áætlunarflug yfir helstu vetrarmánuðina, desember, janúar og febrúar, fjórum sinnum í viku. Nú hefur samningurinn verið framlengdur um tvær vikur og gildir til 15. mars eins og fyrr segir.
Flugleiðin er styrkt sérstaklega af ríkinu til að tryggja tímabundna lágmarksþjónustu á þessari leið á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda er flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.