Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga segir þetta leiðinlegar fréttir aðspurður um viðbrögð við ákvörðun Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar.
„Við höfum reitt okkur á flug félagsins í áratugi. Farþegar eru á ári um 27 þúsund, svo það er eftir talsverðu að slægjast fyrir önnur flugfélög að fara inn á þennan markað, ekki síst þegar ríkið styður innanlandsflug í gegnum Loftbrú. Í þessu samhengi er ágætt að tilkynning um þessi áform komi með góðum fyrirvara.
Þrátt fyrir vegabætur er flugið auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir Ísafjörð og nærsveitir þar sem ekki eru neinar almenningssamgöngur. Flugið er mikilvægt fyrir einstaklinga, atvinnulífið, ferðaþjónustu og skilvirkt nútímasamfélag. Svo eru það starfsmenn Icelandair á Ísafirði.“
Gylfi segir að forsvarsmenn sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum hafi þegar brugðist við og óskað eftir fundum með Icelandair og samgönguráðherra.
„Við í Vestfjarðastofu og forsvarsmenn sveitarfélaganna á svæðinu erum komin með bókaða fundi í vikunni bæði með fulltrúum Icelandair og ráðherra samgöngumála. Þá erum við að setja okkur í samband við hin flugfélögin til að heyra í þeim hljóðið. Gagnaöflun og greiningarvinna er þegar byrjuð.
Ég hef ekki áhyggjur af því að það verði ekki flogið á Ísafjörð áfram, en óvissan er óþægileg og henni þarf að eyða sem fyrst.“