Alma D. Möller heilbrigðisráðherra úthlutaði á föstudag 98 milljónum króna til 153 verkefna í styrki úr Lýðheilsusjóði við athöfn á Hilton Reykjavík Nordica.
Á meðal styrkhafa er Héraðssamband Strandamanna í vekefnið Sterk á Ströndum sem fékk 500 þúsund Skíðafélag Strandamanna sem fékk 350 þúsund og Héraðssambandið Hrafna-Flóki sem fékk 300 þúsund í verkefnið Fræðsludagatal Hrafna-Flóka.
Að þessu sinni var áhersla lögð á að styrkja aðgerðir sem miða meðal annars að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika. Einnig var áhersla á áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Við mat á umsóknum fyrir árið 2025 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.
Heilbrigðisráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald Lýðheilsusjóðs.