Samfylkingin eykur fylgi sitt verulega á landsvísu samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup, sem unnin var í febrúar fyrir RUV. Ríkisútvarpið hefur einnig veitt aðgang að kjördæmaniðurbroti könnunarinnar.
Á landsvísu eykst fylgi Samfylkingarinnar um 5% og mælist flokkurinn með 26% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,5% í könnuninni, sem er 2,1% meira fylgi en flokkurinn fékk í alþingiskosningunum í lok nóvember sl. Flokkur fólksins missir um 5,5% fylgi frá kosningunum og mælist með 8,3%.
55% fylgisaukning Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi
Í Norðvesturkjördæmi tekur Samfylkingin mikið stökk frá úrslitum alþingiskosninganna og eykur fylgi sitt úr 15,9% upp í 24,6% og mælist langstærsti flokkurinn í kjördæminu. Sjálfstæðisflokkurinn bætir einnig við sig og fer í 19,3%, en var með 18% í kosningunum. Hinir stjórnarflokkarnir, Viðreisn og Flokkur fólksins tapa báðir um þriðjungi fylgis síns. Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka. Svo virðist sem fylgisaukning Samfylkingarinnar sé að mestu á kostnað hinna stjórnarflokkanna tveggja.
Ef þetta yrðu úrslit kosninga myndi þingsæti Viðreisnar í kjördæminu flytjast til Samfylkingarinnar, sem fengi þá tvo kjördæmakjörna þingmenn. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins fengju hver sitt þingsæti. Ekki er spáð fyrir um það hvaða flokkur fengi jöfnunarþingsætið.

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. febrúar – 2. mars 2025. Heildarúrtaksstærð var 9.652 og þátttökuhlutfall var 47,2%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Alls er byggt á 3.820 svörum og þar af voru 313 úr Norðvesturkjördæmi.