Hólmavík: hótel fyrir 3 milljarða króna

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í fyrra. Frá vinstri: Friðjón, Matthías og Þorgeir.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar upplýsir á vef sveitarfélagsins í síðustu viku að áform um 60 herbergja hótel á Hólmavík sé framkvæmd sem kosti um 3 milljarða króna.

Þorgeir segir: „Hótel Strandir, er vinnuheiti nýs, 4ra stjörnu hótels sem mun rísa að öllu óbreyttu á Hólmavík á næstu árum.  Gert er ráð fyrir um 60 herbergja hóteli í fyrsta gæðaflokki og er heildarkostnaður áætlaður um þrír milljarðar.  Þau Friðjón Sigurðarson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, frá Fasteignaumsýslunni, kynntu þessi áform og hjá þeim kom fram að gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist síðla þessa árs og að hótelið opni árið 2027.“

Miðvikudaginn 19. febrúar sl. var haldinn íbúafundur í félagsheimilinu og fór þar fram kynning á aðalskipulagi Strandabyggðar og einnig voru áform um byggingu hótels á Hólmavík kynnt almenningi. Þorgeir segir að skiptar skoðanir hafi komið fram á fundinum um málið, einkum um staðsetninguna, en hótelið mun rísa á klettunum fyrir neðan sundlaugina.

En  það sé hins vegar mikilvægt í allri umræðu um hótelið, að huga að þeim miklu hagsmunum og margföldunaráhrifum sem hótelið mun hafa fyrir Strandabyggð og samfélagið á Hólmavík og í raun alla Vestfirði. 

 

DEILA