
Níu alþingismenn úr þremur þingflokkum stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram beiðni til samgönguráðherra um skýrslu um lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar. Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson (D) og meðal annarra flutningsmanna eru tveir þingmenn Norðvesturkjördæmis, Ólafur Adolfsson (D) og Ingibjörgg Davíðsdóttir (M).
Vilja þingmennirnir skýrslan upplýsi um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar.
Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi atriði:
1. Samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli frá 19. apríl 2013.
2. Verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta.
3. Hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
4. Hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009.
5. Hvort framkvæmd lokunar flugbrautarinnar og háttsemi Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia hafi verið í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, m.a. með tilliti til flugöryggis og almannaöryggis.
6. Hvort samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um fellingu trjáa í Öskjuhlíð.
7. Hvernig staðið var að skipun starfshóps vegna setningar skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga um loftferðir og hvernig vinnu starfshópsins hefur miðað.
Í greinargerð segir að lokun flugbrautarinnar „hefur sett sjúkraflug í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin er til komin vegna þess að ekki hefur mátt fella tré í Öskjuhlíð. Borgaryfirvöld hafa vitað af þessu vandamáli í a.m.k. áratug en hafa látið hjá líða að grípa til aðgerða í samræmi við samkomulag við ríkið. Um grundvallarhagsmuni er að ræða sem varða öryggi landsmanna.“