Gróandi: líst ekki á áform um Eyrarkláf

Mynd úr Skipulags- og matslýsingu fyrir Eyrarkláf.

Samtökin Gróandi lýsa yfir áhyggjum af áformum um að gera kláf upp á Eyrarfjall og auk þess að lýsa óánægju yfir því að framkvæmdin eyðileggur garð Gróanda, sem fari undir bílastæði. Segir í athugasemd samtakanna að þau hafi unnið að garðinum í níu ár og finna að því að hafa ekki verið beðin um álit sitt á Eyrarkláfi. Erindið er undirritað af Sonia Sobiech og er ritað á ensku.

Framkomnar umsagnir um Eyrarkláf voru lagðar fram og kynntar á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar í síðustu viku. Skipulags- og matslýsing á Eyrarkláfi hefur verið lögð fram og er í kynningu. Í framhaldinu verða unnar breytingar á aðal- og deiliskipulagi Ísafjarðarbæjar.

Skipulagsstofnun bendir á í sinni umsögn að ekki liggi fyrir hættumat fyrir allt svæðið. Telur stofnunin að æskilegt væri að fyrir liggi staðbundið hættumat, vegna ofanflóðs eða aurskriðu áður en leyfi eru gefin út á grundvelli deiliskipulags.

DEILA