Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – Ráðning forstöðumanns og starfsemin fyrstu árin

Grein 2 af 3.

Það eru komin 20 ár frá stofnun Háskólasetursins og boðað hefur verið til ársfundar 14. mars nk. þar sem minnast á þessara tímamóta.

Eitt af fyrstu verkum stjórnar nýstofnaðs Háskólaseturs var að auglýsa eftir forstöðumanni Háskólasetursins.

Þetta kom m.a. fram í auglýsingunni:

,,Forstöðumaður stýrir uppbyggingu og rekstri Háskólasetursins í umboði stjórnar og annast daglegan rekstur þess.  Hann fer með fjármál og reikningshald setursins og ræður fólk til starfa. Hann ber ábyrgð gagnvart stjórn og vinnur samkvæmt ráðningasamningi og sérstakri starfslýsingu. Stjórn Háskólaseturs ræður forstöðumann.

Umsækjandi skal vera með meistara- eða doktorsgráðu á sínu sviði eða sambærilega menntun . Hann skal hafa reynslu af rekstri og stjórnunarstörfum og hafa þekkingu á akademísku umhverfi. Hann þarf að geta starfað sjálfstætt, haft frumkvæði í krefjandi uppbyggingastarfi, deilt verkefnum til annarra og skapað sterka liðsheild. 

Umsókn skal fylgja greinargóð skýrsla   um störf umsækjanda, stjórnunarreynslu, rannsóknir og ritsmíðar, og hver þau önnur verkefni sem hann hefur unnið við og varpa ljósi á færni hans til að sinna starfinu. Ennfremur yfirlit um námsferil og afrit af prófskírteinum. Umsókninni skal fylgja greinargerð um hugmyndir umsækjanda um starfið og hvernig hann sér fyrir sér uppbyggingu þekkingastarfs til lengri framtíðar.”

Úr hópi sex umsækjenda varð Dr. Peter Weiss forstöðumaður Goethe Zentrum í Reykjavík fyrir valinu. Eftir viðtöl við umsækjendur var það einróma niðurstaða stjórnar að ráða Peter sem heillaði stjórnina upp úr skónum í viðtalinu með einlægni sinni, ást á Bestfjörðum eins og hann orðaði það og skýrri framtíðarsýn fyrir Háskólasetrið. Hann var líka meðvitaður um að það væri snúið að feta rétta braut í upphafi því væntingarnar í samfélaginu væru svo miklar. ,,Væntingarnar eru hærri en fjöllin í kringum okkur“ sagði Peter.

Peter benti stjórn á það í viðtalinu að það gæti verið áhætta, jafnvel brjálæði að ráða útlending til að stýra svona stofnun. Það má segja að það sé eina heilræðið frá Peter sem stjórn hlustaði ekki á enda er ljóst 20 árum síðar að þarna var tekin hárrétt ákvörðun því Peter hefur byggt upp eftirtektarverða starfsemi með sínu starfsfólki og stjórn.

Þá tókst einnig vel til varðandi húsnæðismálin því fyrir valinu varð Vestrahúsið sem á þessum tíma hýsti Þróunarsetur og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þarna voru því fjölmörg fyrirtæki og stofnanir í 1.500 fermetra húsnæði og þar af fékk Háskólasetrið 650 fermetra. Margt hefur breyst síðan þá en þetta var upphafið. Samstarfið við eigendur Vestrahússins var og hefur verið alla tíð til mikillar fyrirmyndar enda mikil og einlæg samfélagsvitund sem fylgir þeim. Þarna hefur orðið til suðupottur menntunar, rannsókna og nýrra hugmynda til heilla fyrir Vestfirði.

Fljótlega eftir stofnun var auglýsingu birt og dreift með upplýsingum um námsframboð sem til að byrja með var mest fjarnám en um leið góð aðstaða til að geta stundað það í Háskólasetrinu. Síðan var farið að vinna að staðnámshlutanum sem mikil áhersla hafði verið lögð á. Niðurstaðan var sú að koma á mastersnámi í Haf- og strandsvæðastjórnun sem kennt yrði á ensku í lotum og gera nemendum kleift að klára það á einu ári. Vestfirðir eru einstakt svæði fyrir kennslu á þessu sviði. Ástæðan fyrir kennslu á ensku var og er sú að staðnám á Vestfjörðum þarf að fá nemendur utan frá til þess að það sé mögulegt í framkvæmd. Þetta hefur gefist vel og hefur Háskólasetrið útskrifað marga hæfa einstaklinga sem bera hróður þess og Vestfjarða um allan heim. Þá setjast sumir útskrifaðir mastersnemar að á Íslandi, stunda rannsóknir í náminu, eru í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu og efla það og lífga upp á bæjarbraginn. Það er líka ljóst að með öflugum fyrirtækjum á borð við Kerecics, fiskeldisfyrirtækin og fleiri styður Háskólasetrið við slíka starfsemi. Fullyrðingar um þetta eru ekki bara greinarhöfundar heldur hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna haft orð á þessu.

Með öflugum forstöðumanni og starfsfólki hefur tekist að uppfylla það sem var bara draumur fyrir 20 árum um háskólanám á Vestfjörðum og að góður hluti þess yrði staðnám.

Halldór Halldórsson

formaður Háskólaseturs fyrstu 10 árin.

Þriðja og síðasta greinin er um stöðu Háskólasetursins á 20 ára afmælinu.

DEILA