Aflagjald Vesturbyggðar : Arnarlax vann í Landsrétti

Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Vestfjarða frá 9. nóvember 2023 þar sem Arnarlax var sýknað af kröfu Vesturbyggðar um ógreidd aflagjöld vegna landaðs eldislax á árinu 2020. Vesturbyggð var auk þess dæmt til þess að greiða Arnarlaxi 1 m.kr. í málskostnað fyrir Landsrétti. Héraðsdómur dæmdi Vesturbyggð til þess að greiða 4 m.kr. í málskostnað.

Munurinn á greiddum reikningum fyrir 2020 og útgefnum reikningum Vesturbyggðar er 23,5 m.kr. Málarekstur fyrir héraðsdómi tók langan tíma þar sem málsaðilar freistuðu þess að ná sátt í deilunni. Vildi Arnarlax gera þjónustusamningur á grundvelli 5. mgr. 17. gr. hafnalaga, en Vesturbyggð hefur ekki talið forsendur til gerðar slíks samnings.

Vesturbyggð setti gjaldskrá um gjöldin 2015. Lækkaði aflagjöldin 2017 úr 0,7% í 0,6% og hækkaði aftur frá ársbyrjun 2020 aflagjöldin í 0,7% auk þess að miða aflaverðmæti á hverjum tíma við vísitölu Nasdaq. Arnarlax mótmælti breytingunum og hélt áfram að greiða miðað við eldri gjaldskrá. Mismuninn vildi Vesturbyggð innheimta og stefndi Arnarlax fyrir dómstóla til greiðslu.

Niðurstaða Landsréttar er sú sama og Héraðsdóms Vestfjarða að aflagjald í hafnalögum, sem er meginþungi innheimtunnar, eigi einungis við um afla á villtum fiski og að eldisfyrirtæki geti ekki talist sjávarútvegsfyrirtæki. Því hafi engin lagastoð verið fyrir innheimtu á aflagjaldi af eldisfiski.

Hafnalögum var breytt á Alþingi í fyrra og bætt við ákvæði um eldisgjald. Vesturbyggð hefur síðan bætt við gjaldskrá sína eldisgjaldi og er það 0,7%.

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir dóminn vera gríðarleg vonbrigði og honum fylgi mikil óvissa um gjaldtökuna á aflagjaldi af eldisfiski og Arnarlax gæti krafist þess að fá það endurgreitt.

Hún segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun á þessu stigi máls um að sækja um áfrýjunarleyfi til hæstaréttar.

DEILA