Ég er fædd í Reykjavík og ólst þar upp með þremur systkynum mínum. Ég skrapp með vinkonu minni í heimsókn til Patreksfjarðar þegar ég var unglingsstúlka og kynntist ég þá manninum mínum og Patreksfirði. Eftir 51 ár er ég hérna ennþá og kann afskaplega vel við mig og vil hvergi annarstaðar búa en í faðmi fjallanna og með útsýn yfir sjóinn.
Textinn í laginu “ er það hafið eða fjöllin sem laða mig hér að eða er það fólkið á þessum stað“ eftir hann Óla popp á svo sannarelga vel við í mínu tilfelli. Mér finnst ég vera meiri Patreksfirðingur en sumir sem hafa alist hér upp. Ég á 3 börn og ólust þau upp hérna og eftir langskólanám fluttu þau öll aftur heim til Patreksfjarðar. Þau stofnuðu fjölskyldur og á ég 10 barnabörn sem hefur verið mér ómetanlegt að hafa allt í kring um mig. Reglulega erum við öll með gæða samverustundir og höfum farið saman í ómetanlegar skemmtiferðir vítt og breytt um landið eða jafnvel erlendis. Ég elska að brasa ýmislegt með barnabörnunum mínum og þau koma reglulega að baka hveitikökur,kanelsnúða eða pitsur með mér.
Ég er hárgreiðslumeistari og vann við það í 40 ár en hætti að starfa fyrir 2 árum á sama tíma og eiginmaðurinn minn hann Kristján Karlsson hætti vélstjórastörfum á Júlíusi Geirmundssyni eftir 33 ára starf þar. Nú njótum við lífsins í faðmi fjölskyldunnar og höfum nóg fyrir stafni. Við stundum bæði sjósund okkur til heilsubóta og það heldur okkur gangandi. Fyrir utan það er ég í saumaklúbb sem gerir „handavinnu“ og einnig í bókaklúbb sem hittist reglulega yfir vetrartímann.
Eitt af aðal áhugamálum mínum er að starfa í slysavarnadeildinni Unni en ég hef verið í henni í 36 ár og setið í stjórn í 18 ár með hléum á milli. Í dag eru 102 konur í deildinni og er hún fjölmennasta deildin á landinu. Það hefur verið gefandi að vinna að forvörnum, slysavörnum og að safna peningum fyrir öryggis og björgunarbúnaði. Verið er að smíða nýtt björgunarskip sem er áætlað að komi til Patreksfjarðar 2026 og gaf svd Unnur á síðasta aðalfundi 19.febrúar s.l 10 miljónir í sjóð til styrktar á þeim smíðum. Einnig var deildin með 13 slysavarnaverkefni / forvarnir í nærumhverfi sínu á síðasta ári. Það er ómetanlegt og óeigingjarnt starf sem konurnar í slysavarnadeildinni Unni vinna fyrir samfélagið. Ég er stolt af því að starfa og tilheyra slysavarnadeildinni Unni á Patreksfirði. Nú bíð ég spennt eftir þeim verkefnum sem framtíðin býður uppá.
Bestu sólarkveðjur frá Tenerife þar sem ég nýt lífsins í sól og blíðu með eiginmanni mínum.

Hjónin Sólrún og Kristján með börnum, tengdabörnum og barnabörnum.