Samgönguráðherra: gefur ekkert upp um forgangsröðun jarðganga

Eyjólfur Ármannson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar að ráðast í innviðaframkvæmdir sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu strax. Nefndi hann hafnaframkvæmdir sem dæmi.

Þessi yfirlýsing vekur athygli þar sem á Ísafirði og í Bolungavík hafa verið miklar framkvæmdir eða eru áformaðar til þess að mæta auknum umsvifum í laxeldi og móttöku skemmtiferðaskipa.

Þetta kom fram á fundi ráðherra og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur,alþm. á Ísafirði á þriðjudaginn. Ráðherrann var ítrekað inntur eftir því hver yrðu næstu jarðgöng sem ráðist verður í en hann varðist allra svara af því og sagði að það yrði upplýst næsta haust þegar mælt verður fyrir samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á Alþingi.

Þó kom fram í máli hans að Fjarðaheiðagöng, milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, væru tilbúin og unnið væri að undirbúningi að Fljótagöngum og Súðavíkurgöngum. Þá sagðist hann vera tilbúinn til að skoða nánar hugmyndir um að göng undir Klettsháls yrði fjármögnuð að hluta með veggjöldum, en í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri um jarðgangakosti kemur fram það mat að veggjöld geti staðið undir verulegum hluta kostnaðar við göngin.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm sagði um samgöngumálin að á Vestfjörðum væri kallað á sérstaka samgönguáætlun fyrir Vestfirði og vísaði m.a. til málflutnings Innviðafélags Vestfjarða fyrir síðustu alþingiskosninga.

DEILA