Fyrsta grein af þremur
Það er ótrúlegt til þess að hugsa að heil 20 ár séu liðin síðan stofnfundur Háskólaseturs Vestfjarða var haldinn 12. mars 2005. Ársfundur Háskólaseturs verður 14 mars nk. þar sem þessara tímamóta verður minnst.
Undirritaður kom að þessu verkefni og langar að rifja það aðeins upp og vekja athygli á tímamótunum. Það eru forréttindi að hafa átt þátt í því ævintýri að stofna Háskólasetrið og full ástæða til að þakka þeim fjölmörgu sem gerðu það mögulegt.
Samstarfshópur Atvinnuþróunarfélags, Ísafjarðarbæjar, Fjórðungssambands og Fræðslumiðstöðvar skilaði skýrslu til menntamálaráðherra í apríl 2003 um uppbyggingu háskólaseturs. Nefnd á vegum menntamálaráðherra vann síðan skýrslu um þekkingarsetur, stjórn Fræðslumiðstöðvar lagði haustið 2004 fram tillögur til menntamálaráðherra og loks skilaði starfshópur á vegum menntamálaráðherra skýrslu um háskólasetur í febrúar 2005.
Háskólasetur Vestfjarða var stofnað með sérstakri skipulagsskrá sem samþykkt var á stofnfundinum. Stofnaðilar voru 42 talsins, fólk og fyrirtæki sem sá mikilvægi þess fyrir Vestfirði að til yrði öflug háskólastarfsemi. Menntamálaráðuneytið kom með stærsta hluta fjármögnunar í gegnum samning við Háskólasetrið en einnig var stefnt á að taka skólagjöld þar sem það átti við.
Einn mikilvægasti þátturinn í byggðaþróun er sá að til séu fjölbreytt atvinnu- og menntunartækifæri sem víðast. Það er lykill að því að ráða fólk til ýmissa starfa að makinn geti fengið vinnu eða komist í nám á viðkomandi stað. Þessi staðreynd var alltaf leiðarljósið til að efla byggð á Vestfjörðum í huga þeirra sem unnu að stofnun Háskólaseturs, Þróunarseturs og annarra álíka verkefna. Þá var einnig litið svo á að það væri eðlilegt að íslenska ríkið væri með starfsemi sem víðast um landið en einblíndi ekki bara á höfuðborgarsvæðið. Markmið Háskólaseturs frá stofnun var að hækka menntunar- og þekkingarstig, auka staðnám á Vestfjörðum og um leið auka samkeppnishæfni Vestfjarða.
Mikilvæg skref höfðu verið stigin fram að stofnun Háskólaseturs til eflingar náms á Vestfjörðum. Risastórt skref var stigið með stofnun Menntaskólans á Ísafirði, Kennaraháskólinn bauð upp á öflugt fjarnám fyrir kennara. Hjúkrunarfræði byrjaði í fjarnámi haustið 1998 frá Háskólanum á Akureyri og Fræðslumiðstöð Vestfjarða hóf starfsemi sína. Stofnun Háskólaseturs var eðlileg þróun á þessu sviði mennta og rannsókna.
Ýmsar skýrslur um þessi mál höfðu litið dagsins ljós. Auðvitað tókst fólki að þrátta eitthvað um hvernig, hvar og hvenær svona eins og gengur. En að lokum hafðist í gegn að koma starfseminni af stað. Þar lögðu margir heimamenn hönd á plóg og afstaða Háskólans á Akureyri var lykilatriði til að þetta gengi allt upp. Samstarfið við HA hefur verið til mikillar fyrirmyndar alveg frá upphafi.
Frá upphafi var tilgangur Háskólaseturs Vestfjarða að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu háskólamenntunar, rannsókna og þekkingarstarfs á Vestfjörðum, og vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði rannsókna, háskóla- og símenntunar, fjölþjóðlegra samstarfsverkefna, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar.
Fyrsta stjórn Háskólaseturs Vestfjarða var skipuð eftirtöldum: Halldór Halldórsson, bæjarstjóri sem var valinn formaður og var í því hlutverki fyrstu 10 árin, Hjálmar H. Ragnarsson rektor Listaháskóla Íslands, Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Kristján G. Jóakimsson vinnslu- og markaðsstjóri HG og Soffía Vagnsdóttir bæjarfulltrúi sem valin var ritari stjórnar. Auk þess sat Þorsteinn Jóhannesson formaður fulltrúaráðsins stjórnarfundi þegar hann kom því við.
Þetta var góð samsetning stjórnar sem breyttist af og til í gegnum árin. Háskólasetrið hefur búið að því að hafa gott stjórnarfólk sem aldrei hefur þegið laun fyrir sín störf. Samsetning stjórnar hefur líka verið þannig að mennta- og rannsóknastofnanir auk heimamanna hafa átt sína fulltrúa í stjórn. Það hefur reynst gæfuspor.
Í fyrstu varastjórn sátu: Lárus Valdimarsson bæjarfulltrúi, Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri, Magnús Jónsson veðurstofustjóri, Laufey Jónsdóttir framkvæmdastjóri og Guðrún Stella Gissurardóttir forstöðumaður.
Eitt af fyrstu verkum stjórnar var að vinna að húsnæðismálum fyrir Háskólasetrið, samningum vegna fjármögnunar og auglýsa eftir forstöðumanni Háskólaseturs Vestfjarða og þannig undirbúa starfsemina sem hófst haustið 2005.
Halldór Halldórsson
formaður Háskólaseturs fyrstu 10 árin.
Næsta grein er um ráðningu forstöðumanns, húsnæðismálin og starfsemina fyrstu árin.