Kjarasamningur Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara laust fyrir miðnættið í gærkvöld. Samningurinn er mjög svipaður þeim sem sveitarfélögin höfnuðu síðastliðinn föstudag.
Ríkissáttasemjari hafði boðað samningsaðila til fundar klukkan 15 í gær, eftir vonbrigði síðasta föstudag. Þá samþykktu kennarar innanhússtillögu sáttasemjara en sveitarfélögin höfnuðu.
Kjarasamningurinn er til fjögurra ára og gildir út mars 2028.
Samningurinn felur í sér 24 prósent launahækkanir yfir tímabilið.
Gert verður bráðabirgðamat á störfum kennara, sem skilar þeim 8 prósent innáborgun strax inn á virðismatið sem á eftir að fara fram.
Forsenduákvæði samningsins verðurí fyrsta lagi hægt að virkja 1. mars 2027 en forsendunefnd gerir kennurum erfiðara um vik að segja upp samningnum og þarf ákveðið ferli að eiga sér stað áður en það er mögulegt.