Flokkur fólksins: frv um strandveiðar væntanlegt

Eyjólfur Ármannson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Flokkur fólksins stóð fyrir almennum fundi á Dokkunni á Ísafirði í gærkvöldi. Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm. höfðu framsögu á fundinum sem var fjölsóttur.

Í máli Lilju Rafneyjar kom fram að frumvarp til breytinga á lögum um strandveiðar væri væntanlegt í samráðsgátt stjórnvalda til þess að tryggja ákvæði stjórnarsáttmálans um 48 daga strandveiðar í ár. Sagði hún að stefnt væri að því að afgreiða það í vor en ítarlegra frumvarp væri svo væntanlegt í haust.

Þá kom framhjá Lilju Rafney að unnið væri að breytingum á löggjöf um kvótasetningu á grásleppuveiðum og það myndi koma í ljós á næstu dögum hver niðurstaðan yrði í því máli.

Beitir sér fyrir nýrri flugstöð

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra sagði að Reykjavíkurborg hefði í fyrri samningum við ríkið skuldbundið sig til þess að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli og hann myndi ganga eftir því að við það yrði staðið. Hann sagði að svo virtist að Reykjavíkurborg hafi á undanförnum árum grafið undan flugvellinum , svo sem með því að leyfa nýjar byggingar, draga að lækka tré í Öskjuhlíð og kröfu um að færa girðingar um flugvöllinn og áforma nýja byggð í Skerjafirðinum. Eyjólfur sagði vinnubrögð Reykjavíkurborgar óásættanleg. Þá kom fram hjá samgönguráðherra að hann myndi beita sér fyrir nýrri flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Icelandair eigi þá flugstöð sem þar er en fyrirtækið sé tilbúið að selja hana ríkinu fyrir 300 m.kr. Til væri lóð fyrir nýja flugstöð.

Frá fundinum í gærkvöldi. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á morgun verða þrír þingmenn Samfylkingarinnar á ferð á Ísafirði og hægt verður að hitta þá á Logni , veitingastað kl 8 í morgunkaffi.

DEILA