Ísafjarðarbær: vilja hita upp gervigrasið á Torfnesi

Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur. Mynd: Ásgeir Hólm.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í bæjarráði tillögu um að senda inn sameiginlega umsókn með
Bolungavík og Súðavík í fiskeldissjóð þar sem sótt er umbúnað til upphitunar á gervigrasvellinum á
Torfnesi á Ísafirði.

Í erindi þeirra til bæjarráðs segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi rætt við sveitarfélögin um þessa hugmynd og að hugmyndinni hafi verið fagnað, nágrannasveitarfélögin séu reiðubúin að vera með Ísafjarðarbæ í umsókninni.
„Einnig hefur verið rætt við Bláma um aðkomu þeirra að málinu, þeir eru reiðubúnir til samstarfs og er
vinna í raun þegar hafin til að skoða verkefnið. Fyrst þarf að meta hagkvæmi þess að setja upp varmadælukerfi og bera saman hvaða kerfi eru möguleg og kostnaðarmeta verkefnið.“

Hugmyndin er að setja upp varmadælur í kjallara íþróttahússins á Torfnesi, heildarkostnaður er
áætlaður um 45 milljónir.

  • Kostnaður við kaup á varmadælum er um 25 millj.
  • Uppsetning á varmadælum 5 millj.
  • Lagnir að fótboltavelli 5 millj.
  • Frostlögur í hitalagnir 5 millj.
  • Hönnun og annað ófyrirséð 5 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að keyra hita á völlinn frá desember til apríl eða eftir veðri hverju sinni. Þegar völlurinn er ekki kynntur er hægt að nýta orkuna í íþróttahúsið. Orkukostnaður í íþróttahúsinu er um 5,3 millj á ári, þ.e. flutningur og orka. Orkukostnaður þá mánuði sem hiti er ekki á fótboltavellinum er um 2,7 millj. á ári. Einnig mætti skoða samstarf með Menntaskólanum á Ísafirði til að fullnýta varmadælurnar yfir vor- og sumarmánuði.

Bæjarráð tók vel í erindið og fól bæjarstjóra að undirbúa umsókn í fiskeldissjóð samhliða öðrum umsóknum sem eru í undirbúningi.

DEILA