Ísafjarðarbær: 40 þús kr. frístundastyrkur

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku að taka upp frístundastyrki og verður styrkurinn í ár 40 þúsund krónur.

Styrkurinn nær til frístundaiðkunar barna í 5.-10. bekk í grunnskóla með lögheimili í Ísafjarðarbæ.

Frístundastyrkur skal nýttur til að greiða æfingagjöld eða þátttökugjöld í skipulögðu íþrótta-, lista- og/eða tómstundastarfi, og skal einskorðast við kennitölu þess barns sem frístundastyrkurinn tilheyrir.
Frístundastyrk má nýta að fullu eða hluta til niðurgreiðslu æfinga- og námskeiðsgjalda og geta forráðamenn ráðstafað þeim hvenær sem er yfir árið og óháð fjölda greina/námskeiða.
Ekki er hægt að ráðstafa hærri upphæð til félags en námskeið kostar. Ef kostnaður við námskeið er hærri en ráðstöfunin, skal félag sjá um innheimtu mismunar hjá forráðamönnum barns.
Frístundastyrkur hvers árs gildir fyrir hvert barn á hverju 12 mánaða tímabili. Ónýttur frístundastyrkur fellur niður í lok hvers árs.

Í sérstökum reglum um frístundastyrk sem bæjarstjórn samþykkti segir að skilyrði þess að hægt sé að nýta frístundastyrkinn sé að um skipulagt íþrótta-, lista- eða tómstundastarf sé að ræða og sé stundað undir leiðsögn þjálfara, leiðbeinenda eða kennara, eldrien 18 ára. Heimilt er þó að ungmenni undir 18 ára aldri aðstoði við þjálfun eða leiðbeinendastörf í barnastarfi.

Þá segir að þau félög og fyrirtæki sem taka við frístundastyrk frá Ísafjarðarbæ skuli leitast við að stilla verðlagi á æfinga- og þátttökugjöldum í hóf og veita skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd upplýsingar um gjaldskrár ef eftir því er óskað.

DEILA